Umhverfis Hrómundartind

Umhverfis Hrómundartind 19. nóvember

Nú verður gengið umhverfis Hrómundartind með möguleika að ganga á sjálfan tindinn fyrir þá sem vilja (ca 560 m). Þetta er mjög fallegt svæði og mun áreiðanlega koma á óvart því þarna er mjög fjölbreytt landslag með hverasvæðum og fallegri fjallasýn. Við göngum m.a. um mjög sérstakt gil – en sjón er sögu ríkari.

Þegar inn á Ölkelduháls er komið verður fyrst í stað gengið eftir línuveginum og honum fylgt yfir Ölkelduhálsinn og niður í dalinn handan við hann.  Liggur þá leiðin nokkuð niður í móti, framhjá Álftatjörn og þaðan niður að Kattartjörnum. Kattartjarnir virðast vera gamlir sprengigígar frá ísöld, með miklum klettabörmum og eru nokkuð fallegar á að líta. Neðri tjörnin og sú stærri er afrennslislaus en úr þeirri efri og minni rennur lítill lækur niður í Tindagil og hverfur þar.
För okkar verður, þegar hingað er komið, heitið niður áðurnefnt Tindagil, það er nokkuð grýtt á köflum en með smá lagni er ekkert mál að klöngrast það. Víða er það nokkuð þröngt en ekkert til að hafa áhyggjur af. Þegar gilið tekur enda erum við komin norður fyrir Hrómundartind og fyrir augum okkar er Þverárdalur og eftir honum  rennur Þverá sem  neðar heitir svo Ölfusvatnsá.
Leið okkar liggur núna upp dalinn, hvort heldur sem er beinustu leið eftir merktri gönguleið eða ganga upp með ánni. Öllu meira er þó á sjá ef gengið er upp með ánni og inn í Kýrgil. Á leiðinni er margt að skoða og sjá. Á hægri hönd blasa við gufusoðnar hlíðar Hengilsins með giljum og skorningum og víða má sjá gufustróka stíga til himins. Á vinstri hönd eru Hrómundartindur, Lakaskörð og Tjarnarhnjúkur og svo vellandi Ölkelduhálsinn með rjúkandi gufuhverunum.
Þessi leið er ekki erfið. Brekkur eru einhverjar og allar auðveldar og þægilegar. Fyrri hluta leiðarinnar er fylgt vegi og slóða, en síðan tekur við smá klöngur í Tindagilinu en síðan móar og melar eftir það.

Eins og jafnan í viðburðum Ferðafélags Árnesinga, er ekkert þátttökugjald, nema annað sé tekið fram. Það er svo samkomulagsatriði milli þeirra sem ferðast saman í bíl, hvernig þeir deila þeim kostnaði á milli sín.Eins og alltaf þá eru allir velkomnir.

Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 9:30, stundvíslega, þar sem safnast verður saman í bíla.
Vegalengd: um 11 km
Göngutími: um 4 klst
GPS

Heimildir: F.Í og Toppatrítl

Með kveðju Ferðafélag Árnesinga