Þjórsárós-Stokkseyri

Þjórsárós-Stokkseyri, sunnudaginn (Konudaginn) 20. febrúar

Gengið frá Fljótshólum að Þjórsárósum vestur með ströndinni að Stokkseyri. Á leiðinni eru t.d. Knarrarósviti og rjómabúið á Baugstöðum en þar er minjasafn. Þjórsá er ein af vatnsmestu ám landsins og áhugavert að koma að ósum hennar.

Hér eru nánari upplýsingar um það sem fyrir ber á þessari gönguleið.

Kort af áætlaðri leið, rauða leiðin er yfir tvö læki, sem eru trúlegast ófærir að vaða, en við sjáum til.


Lengsta á landsins Þjórsá, 230 km og hefur mesta vatnasviðið. Vatnsmagnið hennar er svipað og Ölfusár og kemur mest undan Höfsjökli og Vatnajökli.

Mesta víðsýni í byggð á landinu. Náttúrufegurð er mikil í austanverðum Flóanum. Héðan sér vítt til allra átta. Til vesturs má sjá allt til Fagradalsfjalls á Reykjanesi. Til norðurs sést til Þórisjökuls og til Mýrdalsjökuls í austri. Á milli er stórkostlegur fjallahringur; Selvogsheiði, Skálafell, Ingólfsfjall, Búrfell, Kálfstindar, Hlöðufell, Hestfjall, Vörðufell, Hekla, Tindfjöll, Þríhyrningur, Eyjafjallajökull, Seljalandsmúli og Hestfjallahnjúkur í Þjórsárdal, sem er á okkar dagskrá 27. ágúst n.k. Til suðurs blasa Vestmannaeyjar við á mörkum himins og hafs. 

Mesta hraun jarðar, Þjórsárhraunið mikla, liggur undir mestöllum Flóanum.  Þetta er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk. Það kom upp í ógnarmiklu eldgosi fyrir um 8.700 árum á svæðinu milli Þórisvatns og Veiðivatna. Hraunið hefur runnið milli Heklu og Búrfells og niður hinn forna farveg Þjórsár og breiddi svo úr sér á láglendinu á Skeiðum og Flóa.  Það rann í sjó fram, og er hraunjaðarinn nú marbakki undan Stokkseyri og Eyrarbakka, um 140 km frá eldstöðvunum.  Það þekur landsvæðið milli Ölfusár og Þjórsár, allt nema hæstu ása, en er víða hulið þykku jarðvegslagi. Sumsstaðar má enn sjá hraunið, t.d. í Stokkseyrarfjöru og á stóru svæði vestan Þjórsárbrúar, en jaðar þess er þó greinilegastur við Urriðafoss sem steypist fram af austurbrún hraunsins.

Eina rjómabúið, sem stendur eftir með öllum búnaði er rjómabúið á Baugsstöðum, rjómabúið tók til starfa árið 1905 og var starfrækt til 1952, lengst allra rjómabúa á Íslandi.

Næsti hæsti ( er ekki kominn tími á bæta við hann svona þremur metrum) viti landsins 26,2 metrar Knarrarósviti var fyrsti viti sem byggður var úr járnbendri steinsteypu og er hæsta bygging á  Suðurlandi.

Vitinn stendur ekki langt frá æskuheimili Páls Ísólfssonar, tónskálds, sem samdi hið kunna lag “Brennið þið vitar” við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.

Stærsta áveita landsins var Flóaáveitan, en á henni var byrjað 1922 og var veitt á Flóann í fyrsta sinn 1927 og var hún þá talin stærsta áveita í Evrópu norðan Alpafjalla. Lengd skurða í Flóaáveitunni mun hafa verið um 300 km. Flóðgarðar voru um 800 km og ábúendur, sem bjuggu við þetta áveitusvæði, voru um 200. Því hefur einnig verið haldið fram, að Flóáveitan sé eitt þeim fáu mannanaverkum sem sjást frá tunglinu.

Eins og sést á þessari upptalning þá er allt mest, best , lengst, stærst og fyrst á þessu svæði.

Vegalengd: um 17+ km
Göngutími: um 5 klst
GPS áætluð leið

Heimildir:

http://stokkseyri.is

http://husid.com

http://www.floi.is

Wikipedia

Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í ódýrri líkamsrækt og göngu í skemmtilegum félagsskap.
Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 9:30, stundvíslega. Þar sem safnast verður saman í bíla. Ætlunin er að við ökum niður á Stokkseyri, þar sem við sameinustum aftur í bíla og ökum að upphafsstað göngunnar við Fljótshóla. Upphafsstaður gæti breyst og við leggðum af stað í gönguna frá Stokkeyri , veljum hagstæðari vindátt.
Með kveðju Ferðafélag Árnesinga