Raufarhólshellir 19.nóvember

Raufarhólshellir er rétt fyrir ofan efsta hjallann á Þrengslavegi, áður en farið er niður í áttina til Þorlákshafnar. Hann er ekki vel sýnilegur frá veginum, þótt hann sé aðeins steinsnar frá honum austanverðum. 
Hellirinn er u.þ.b. 1360 m langur og liggur að hluta undir Þrengslaveginum. Hellirinn er 10-30 m breiður og upp undir 10 m hár. Þakið er víðast u.þ.b. 12 m þykkt nema undir veginum, þar sem það þynnist stöðugt við hrun. Víða hefur hrunið úr þaki hellisins og talsvert er um ísingu, þannig að það er allerfitt að ganga hann á enda.
Hellirinn hefur goldið fyrir að hafa fundizt snemma, því að ekkert er eftir af dropasteinum eða hraunreipum. Um tíma, skömmu eftir 1990, var duftker með ösku indíána frá Eldlandi og plagg með minningu um hann í hellinum. Sagt var, að þýzkur vinur hans hafi lofað að koma jarðneskum leifum hans fyrir á viðeigandi stað. Hvort tveggja var fjarlægt. Raufarhólshellir er talinn hafa myndazt í sprungugosi, sem skildi eftir 11 km langa gígaröð. 

RaufarhólshellirGöngustjóri að þessu sinni verður Ragnar Hólm, þaulvanur björgunarsveitarmaður.
Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 09:30, stundvíslega. Þar sem safnast verður saman í bíla. Munið eldsneytispening 500 kr fyrir þá sem fá far með öðrum.
Nauðsynlegt er að hafa hjálm, gott ljós, auka rafhlöðu og góða vettlinga.
Reikna má með 3-4 klst. sjálfa gönguna fram og til baka.
Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í göngu í skemmtilegum félagsskap.
Athugið að Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þó svo að göngustjóri sé með í för. Félagið hvetur fólk til að vera ferða- og slysatryggt í ferðum sínum.
Með kveðju frá ferðanefnd