Mikil göngugleði um helgina

Gönguræktendur miðvikudagkvöldsins eru óstjórnlega gönguglaðir og hyggja á tvær gönguferðir um helgina. Af því fólk er í sumarfríum og einstakir dagar henta þvi mis vel, verða farnar tvær ferðir um komandi helgi. Gengið verður á Búrfell í Grímsnesi á föstudagskvöld og Meitlana á sunnudagsmorgun.

Á föstudagskvöld verður gengið á Búrfell í Grímsnesi. Mæting er á planið hjá Samkaup kl: 17:30 þar sem safnast er saman í bíla. Gengið verður frá línuvegi skammt frá túnfæti Búrfellsbæjarins. Ekið er í gegnum Þrastaskóg og beygt til hægri inn veg nr 351 þegar komið er út úr skóginum. Hæðin er 534 metrar og byrjunarhæð ca 100 metrar. Þetta er “þægileg og áhugaverð fjallganga með ágætu útsýni að launum”.

Á sunnudagsmorgun er mæting hjá Samkaup kl: 9:30 þar sem safnast er í bíla og gengið á Meitlana við Þrengslaveginn (Stóra-og Litla-Meitil). Hæðin er 547 metrar og byrjunarhæðin 260 metrar. Gangan hefst við Stakahnjúk skammt frá námunni. (þó hinum megin vegarins). “Auðveld leið en dálítið krókótt á fjall sem er áhugaverð náttúrusmíð”.

Eins og jafnan í viðburðum Ferðafélags Árnesinga,  ekkert þátttökugjald, en hver og einn ferðast og nestar sig á eigin kostnað. Það er svo samkomulagsatriði milli þeirra sem ferðast saman í bíl, hvernig þeir deila þeim kostnaði á milli sín.

Dagsferðirnar virðas njóta meiri hylli en helgarferðir með útilegu eða gistingu. Við munum hafa þetta í huga við skipulagningu á göngugleði ágústmánaðar, þar sem fyrirhuguð er ferð í Þakgil. Því má reikna með að sú gönguferð leggi af stað það seint að morgni að fólk geti valið að koma keyrandi um morguninn eða að gista nóttina áður. Nánar á heimasíðunni þegar nær dregur.