Lokaútkall Kerlingafjöll um helgina

Kerlingarfjöll eru ein af náttúruperlum landsins. Þar fara saman stórkostlegt landslag, fjölbreytt og fróðleg jarðfræði og síðast en ekki síst samspil jökla og jarðhita, gróðurs og gróðurleysis og ótrúleg litadýrð. Öllu þessu gleymir enginn sem upplifir fagran dag í þessari einstöku náttúruperlu. Þangað er gönguglöðu fólki stefnt komandi helgi, 3.-5. júlí.

Á wikiloc.com eru tilgreindar 4 leiðir í Kerlingafjallaklasanum.
Snækollur, sem er 5 km leið og tekur um 4 klst. Gengið er úr 1056 metra hæð í 1,507 metra hæð.
Kerlingafjöll, sem er 8,4 km og tekur um 6 klst, Gengið er úr 1,034 metra hæð í 1,492 metra hæð. Gengið er á Loðmund, leiðin er merkt erfið.
Mænir (vestan megin í fjöllunum), 15 km leið sem tekur um 8 klst, gengið er úr 684 metra hæð í 1,370 metra hæð.
Blágnípa, sem er 22 km leið, sem tekur 9 klst, gengið er úr 623 metra hæð í 1,086 metra hæð.
Þá er fjöldinn allur af gönguleiðum inn á kerlingafjöll.is og margar hverjar stikaðar.
Þarna finnast leiðir við allra hæfi.

Hugmyndin er að fólk hittist á tjaldstæðinu í Kerlingafjöllum á föstudagskvöld og jafnvel verði farið í lauflétta göngu fyrir háttinn.
Síðan verður lagt af stað í göngur um 10 leytið um morguninn. Þá verður fólk búið að ákveða hvað ganga skuli kvöldið áður.
Grillað verður sameiginlega síðdegis og heimferð á sunnudag.  Athugað hvort hægt sé að keyra heim t.d um afrétt Hrunamannahrepps eða Gnúpverja og jafnvel skoðuð gil Kisu-áar. Þá væri búið að keyra næstum í kringum Kerlingafjöllin.

Ekkert þátttökugjald er og hver og einn greiðir fyrir sitt tjaldstæði og sér sér fyrir matföngum. Veðurhorfur eru mjög þokkalegar. Austlæg átt og hægur vindur og hiti 9-13 gráður, sem er mjög gott í þessari hæð.

Nú biðjum við fólk um að tilynna þátttöku sína með tölvupósti á ffarnesinga@gmail.com. Ekki er þörf á því að þeir svari sem ekki ætla í ferðina. Fréttum um þátttöku verður komið á heimasíðuna.

Minnum á greiðslu árgjaldsins og Árbækurnar, sem hægt er að sækja á Austurveg 6, 3ju hæð á skrifstofu Kjarna-bókhalds ehf.

Það er komið ræsi í Blákvísl og þá er vegurinn fær öllum bílum, þarf ekki jeppa eða jeppling til fararinnar. Á staðnum er veitingahús, ef einhver nennir ekki að elda  og sturtuaðstaða fyrir tjaldgesti. Veður er þar með besta móti. Reyndar kom Toyota Yaris bíll þarna um daginn áður en ræsið kom.