Landmannalaugar 24. ágúst

Landmannalaugar, Suðurnámur, Háalda, Vondugil og Brennisteinsalda. 24. ágúst  UPPSELT  UPPSELT

Gangan hefst við rætur Suðurnámu (920 m.y.s) brattur en góður stígur upp hlíðina. Héðan er skáli FÍ í suðri, en gengið er til vesturs, eftir breiðum hrygg. Til norðurs eru skrautlegar hlíðar, nyrðri hluti Suðurnáms og til suðurs sést í Landmannalaugar, Bláhnúk, Laugahraun og Brennisteinsöldu. Í skarðinu milli Suðurnáms og Háöldu (1089 m.y.s.) er best að fara miðjan hrygg og forðast ógöngur. Úr skarðinu er stefnt upp á hátind. Þaðan er útsýni til allra átta og í góðu skyggni, níu jökla sýn. Göngu síðan niður af Háöldu til vesturs og þaðan niður með Háöldukvisl í Vondugil. Stórkostlegt svæði með ótrúlegri litadýrð, ekkert verra er að vera hér eftir góðan rigningaskúr en þá skerpir stundum á litum og þeir jafnvel breytast. Þegar við eru búinn að horfa úr okkur augun stefnum við á norðurhlíðar Brennisteinsöldu (881 m.y.s), stikla þarf nokkra smálæki á leiðinni, hækkunin hér upp er ekki mikil eða rúmir tvö hundruð metrar, útsýnið er gott yfir Landmannalaugar og víðar. Héðan förum við um Laugarhraunið og Grænagil að upphafsstað göngunnar. Fyrir þá sem eru enn léttir á fæti geta brugðið sér á Bláhnjúk (945 m.y.s).(sjá græna slóð á korti).

kort

Vegalengd um 19.km
Göngutími um 8 klst.
Byrjunarhæð 600 m.
Mestahæð 1089 m.
Uppsöfnuð hækkun um 1100 m.

 GPS til viðmiðunnar

Ef einhverjir vilja stytta gönguna þá er hægt að fara niður í skarðið milli Háöldu og Suðurnámu. Auðveldast er að fara niður svo kallaðan Uppgönguhrygg innst á Vondugiljaaurum og þaðan inn í Vondugil.(sjá rauða slóð á korti).
Farið verður með rútu frá FSU Selfossi stundvíslega kl. 07:30.00 þann 24. ágúst
Hægt er að geyma farangur í rútunni yfir daginn .
Þeir sem hafa greitt félagsgjöld í FFÁR og FÍ fyrir árið 2019 greiða kr. 5.000-, þeir sem eru utan þessara tveggja félaga greiða kr. 10.000-. Greiðsla fer inn á reikning Ferðafélags Árnesinga 0189-26-001580, kt:430409-1580 og senda kvittun á ffarnesinga@gmail.com  Hætt verður að taka við skráningum þriðjudagskvöldið 20.ágúst.
Göngustjórar eru úr hópi FFÁR: Daði Garðarsson og Olgeir Jónsson
Athugið að Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þó svo að göngustjóri sé með í för. Félagið hvetur fólk til að vera ferða og slysatryggt í ferðum sínum.
Með göngukveðju ferðanefndin