Kýrgil_Hengill

Kýrgil_Hengill 10. júlí

      Ekið sem leið liggur inn á Ölkelduháls. Til að komast þangað er beygt til hægri út af veginum yfir Hellisheiði, svolítið fyrir ofan seinustu beygju í Kömpunum. Ekið er eftir veginum í gegnum hraunið og yfir Hengladalaá og áfram yfir Birtu og að borholunni sem er einna vestast á svæðinu.

Þar hefst gangan. Leiðin liggur upp eftir hálsi, með Kýrgil á hægri hönd, þar sem efst á honum trjónir Kýrgilshnúkur í um 500 metra hæð. Fljótlega lendum við inná stikaða leið sem liggur yfir í Innstadal og Sleggjubeinsskarð. Farið er út af merktu leiðinni fjótlega, en við komu þessa stikuðu leið í bakaleiðinni.  Frá hnúknum má sjá niður eftir Kýrgili sem er hömrum girt eftir því sem ofar dregur og þó nokkuð djúpt. Neðst í gilinu rennur svo lækur sem á upptök sín uppi á Henglinum. Á móts við Kýrgilshnjúk sveigir gilið all snarlega til norðurs þar sem það fellur bratt ofan af stalli, og svo þar rétt fyrir ofan aftur til vesturs.

Niðurleiðin af Kýrgilshnúki er eftir lausri skriðu vestan í honum, og er þó nokkur lækkun. Er þá komið niður á stall, sem gæti alveg verið misgengisstallur, og honum fylgt til norðurs og á leiðinni farið yfir lítil gildrög og svo upp með Kýrgilinu sem, þegar þarna er komið, er vart meira en lítill gilskorningur þar sem lækurinn fellur fram af stöllum og niður í fallega hylji. Fer nú land heldur að taka stakkaskiptum og brúna móbergið sem hefur verið allsráðandi fer heldur halloka fyrir hverasoðnum svæðum, með gulleitum blæ. Brátt opnast fyrir augum kvos ein mikil og litskrúðug, með gufuhverum í botninum. Vert er að staldra við og virða dýrðina fyrir sér en höldum svo sem leið liggur á Skeggja.

Hengillinn er svipmesta fjallið Hellisheiðinni.  Hæstur er hann að norðanvestanverðu þar sem heitir Skeggi eða Vörðu Skeggi (803m yfir sjávarmáli). Sunnan við Hengil eru þrjú dalverpi. Vestastur er Innstidalur, þá Miðdalur en Fremstidalur er austastur. Úr þeim fellur Hengladalaá. Í Innstadal, sem liggur milli Hengils og Skarðsmýrarfjalls (597m y.s.), er einn mesti gufuhver landsins.  Þegar hingað er komið höldum við niður með Hengladalaánni, og höfum hana á hægri hönd. Á móts við Þrengslin, höldum við upp í hlíðina og inn á stikaða leið sem leiðir okkur að upphafsstað.

Þetta er ekkert sérlega strembin leið, en töluvert um hæðabreytingar, þó svo að þær séu ekki ýkja miklar. Göngufærið er mismunandi, ógreinilegur slóði yfir þýfðan móa, smágrýttir melar og lausar skriður og fjárgötur. Nokkrir lækir verða á veginum, en þá er hægt að stikla á steinum.

Vegalengd: 14,5. km
Göngutími: 5+ klst
Byrjunarhæð: 360m
Mestahæð: 803m
GPS

Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, hvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í göngu í skemmtilegum félagsskap.
Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 10:00, stundvíslega. Þar sem safnast verður saman í  bíla.

Heimildir: veraldarvefurinn og könnun á vettvangi

Með göngukveðju Ferðafélag Árnesinga