Kluftir 18. júní
Í heimildum er fyrst getið um búskap á Kluftum árið 1703. Torfbærinn Kluftar hefur verið í eyði frá árinu 1954. Lengi vel var þessi jörð eins konar útvörður sveitarinnar, efsta byggt ból og næst afrétti, í austan- verðum Hrunamannahreppi.
Það var oft harðbýlt þar og langir vetur. En landrými var nóg og haglendi gott. Landið liggur hátt og því var ræktunarland ekkert því jörðin var það hátt (250 m) yfir sjó.
Á Kluftum fæddist kvígan Huppa árið 1926 og frá henni er komið frægasta kúakynlandsins. En uppruna Kluftakynsins tengist þjóðsaga sem tengd er Stóra-Steini (Huppusteini) er stendur við gönguleiðina undir Galtafelli. Líklega væru Kluftir gleymdar með öllu ef þar hefði ekki verið fyrir kýrina Huppu sem átti víst íslandsmet í afrakstri og var búin að skila frá sér um 62 tonnum af mjólk þegar hún féll frá 1943.
Gangan hefst við bæjarrústir gamla Kluftabæjarins. Gengið er fyrst yfir Nónás í vestur að Litlu-Laxá og upp að Kistufossi, öðru nafni Hildarselsfossi. Þaðan er gengið stuttan spöl upp með ánni að Klukkufossi. Frá Klukkufossi er gengið upp Fagradal og áð í sauðahústóftum innst í dalnum. Áfram er gengið upp með Litlu-Laxá að Kerlingarfossi – ekki er vitað hvað margar kerlingar vakta fossinn á göngudaginn 18. júní, en það mun skýrast þegar að kemur. Frá Kerlingarfossi er stuttur spölur að síðasta fossi í ánni. Sá foss ber ekki nafn, en er oft nefndur Fjölskyldufoss. Gengið er áfram upp með ánni neðst í Launvatnsheiðinni þar til komið er að Hegramýrum en þá er snúið í austur og gengið upp á Kluftafjall og þaðan niður í Vestri Borgardal og niður með Kluftá að Hæðarfossi. Stuttur spölur er þaðan að bæjarrústum á Kluftum.
Í lok göngunnar er velkomið að nota snyrtinguna á Litlu Kluftum og fyrir þá sem vilja slaka á og grilla við lok göngunnar þá verður séð til þess að grillið verður heitt.
Nægt pláss er fyrir húsbíla, tjaldvagna og tjöld fyrir þá sem vilja lengja ferðina og gista.
Göngutími: 4-5. klst
Byrjunarhæð: 250m
Mestahæð: 430m GPS
Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í göngu í skemmtilegum félagsskap. Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 9:00, stundvíslega. Þar sem safnast verður saman í bíla, mælst er til þess, að þeir sem vilja nýta sér sæti hjá öðrum borgi 1000. kr. fyrir sætið. Þeir sem vilja koma beint að upphafsstað göngunnar geta keyrt upp Skeiðin áleiðis að Flúðum, beygt inn á veg 344, eknir um 3. km, beygt til hægri inn á veg 345 Kaldbaksveginn upp hjá Hruna. Ekið er fram hjá Þverspyrnu og langleiðina upp að Kaldbak (síðasti kílómeterinn að Kaldbak er nýuppbyggður og seinfarinn, en þó vel fær öllum bílum). Beygt er til vinstri að Kluftum ca 200 metrum áður en komið er að Kaldbaksbænum og eknir 2,9 km upp að rústum bæjarins þar sem gangan hefst.
Heimild:
Göngukveðja Ferðafélag Árnesinga