Ingólfsfjall

Ingólfsfjall 21. apríl

Kveðjum veturinn með kvöldgöngu á Ingólfsfjallið.

Að þessu sinni skulum við feta í fótspor Ingólfs, skreppa á fjallið og virða fyrir okkur það útsýni sem forðum blasti við honum. Ingólfsfjall er hæst 551 m y.s. Það er hömrum girt að mestu nema að norðanverðu, þar eru aflíðandi brekkur upp að fara. Fyrrum, þegar mest allt Suðurlandsundirlendið var sjávarbotn, gekk sjór allt upp að Ingólfsfjalli og brotnaði hafaldan þá á þessum klettum. Að ofan er fjallið flatt. Það er um 5 km frá vestri til austurs en um 7 km frá norðri til suðurs. Við hefjum gönguna fyrir neðan Grænhól.

Af honum blasir við meginhluti Grafningsins og Sogið allt frá Úlfljótsvatni að mótum Hvítár. Austan við Sogið er Grímsnesið og þar eru Seyðishólar, Tjarnhólar og Kerið sem eru fornar eldstöðvar og blasa við augum. Það hraun sem frá þeim kom (Grímsneshraunin) rann að hluta til austurs og suðurs. Hraktist Sogið þá uppundir fjallið og í þann farveg, sem það rennur um nú. Álftavatn er stöðuvatn fyrir norðan fjallið. Sogið rennur í gegn um það. Þótt ótrúlegt sé, er aðeins eitt vað á Soginu og er þá farið yfir Álftavatn.

Frá Grænhól göngum við suður á klettinn Inghól, sem er hæsti staðurinn á fjallinu og lítur út eins og smáþúfa úr byggð að sjá. Þjóðsagan segir að þar sé legstaður Ingólfs Arnarsonar. Menn höfðu hug á að finna sannanir fyrir því og þessvegna tóku nokkrir menn sig til, fóru upp á fjallið með graftól og byrjuðu að grafa. Brátt komu þeir niður á kistu eina mikla. Brugðu þeir böndum undir hana og ætluðu að hefja upp, en kistan sat föst. Þá sagði einn: “Nú tekst það með guðs hjálp”. Skipti það engum togum að kistan losnaði og lyftist. Þá sagði annar: “Nú tekst það, hvort sem guð vill eða ekki”. Þá þyngdist kistan skyndilega, böndin slitnuðu og hún féll til botns. Í sömu andrá sópaðist allur uppgröfturinn ofan í gröfina og allt leit út eins og áður. Mennirnir urðu dauðskelfdir og flúðu í dauðans ofboði. Síðan hefur ekki verið grafið í Inghól. Leiðin liggur nú suður fjallið. Útsýnið er frábært, Selfoss, Flóinn og strandlengjan austur undir Eyjafjöll með Vestmannaeyjar sem útverði við hafið. Nær er Ölfusið, útgerðarbæirnir við hafið, ströndin út með Reykjanesinu og svo allur fjallahringurinn sem ógjörningur er upp að telja í stuttu máli.

Við veljum niðurgönguleið austur af Arnarnípu á suðvesturhorni fjallsins, þar sem hrafnapar er að byggja þennan flotta laup. Efst við brúnina þarf að hafa nokkra aðgæslu, einkum vegna lausra steina á móberginu, en með varúð er ekkert að óttast. Valmöguleiki er að fara hefðbundna leið niður með Þórustaðarnámuni. Vestan við fjallið er toppmyndaður hóll, sem heitir Kögunarhóll (útsýnishóll). Sagan segir, að þetta sé mannvirki frá dögum Ingólfs Arnarsonar, því hann hafi dregið skip sitt þangað upp, komið því þar fyrir og hulið með jarðvegi.

Vegalengd: 10. km
Göngutími: 3-4 klst
Byrjunarhæð: 40m
Mestahæð: 551m

1613688433gonguskor2

Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í göngu í skemmtilegum félagsskap.
Mæting er við  Þórustaðarnámu kl. 19:15, stundvíslega. Þar verður safnast saman í rútu og okkur keyrt norður fyrir fjallið að upphafsstað göngunnar, gjald kr. 500-.
Útbúnaður: hlífaðarfatnaður, eitthvað að maula og drekka og þar sem gangan er að kvöldi til og við gætum lent í því að það verði farið að skyggja í lok göngunar, er mælt með því  að taka með sér ljós.

Heimild:veraldarvefurinn