Högnhöfði 8. júní

Farið verður frá FSU á Selfossi kl. 8.00 sameinast í bíla eftir aðstæðum. Frá Úthlíð að upphafsstað göngu er ekki fyrir lága fólksbíla.
Ekið áleiðis að Högnhöfða (Kúadal eða Litlhöfði) með viðkomu í Brúarárskörðum. Um er að ræða 8 km leið eftir grófum vegi. Upphaf vegarins er við bæinn.
Gangan er um 5 km að lengd. Byrjunarhæð er um 250 m og tindurinn er í 1,002 m hæð. Uppganga tekur um 3,5-4,5 klst og gangan öll um 6-7 klst.
Högnhöfði.
Fjallið er mikið um sig og aflangt frá norðaustri til til suðvesturs og er móbergshryggur eða vanþroska móbergsstapi úr gosi á jökulskeiði er lauk fyrir um tíu þúsund árum. Það er 1,002 m hátt og er bratt og klettótt nánast allt í kring nema að vestan. Þar er fjallið lægst, en þar er hnjúkur um 814 m hár. Þaðan hækkar fjallið í hjöllum inn á hátind. Leiðin austur á hátind er drjúglöng og talsvert gróin, en þó nokkrar skriður en lítið um kletta.
Útsýni af Högnhöfða er mikið. Hlöðufell í norðri og einnig Langjökull með Hagafellsjökli. Lengst suðvestur frá eru Kálfstindar og þaðan í norðaustur Mosaskarðsfjall, Fagradalsfjall og Brekknafjöll við Hagavatn. Þar inn af koma síðan Jarlhettur. Þá sést Bláfell við Kjalveg. Austur af sér allt til Vatnajökuls. Enn fremur sést Búrfell í Þjórsárdal og Hekla og einnig Tindfjöll og Eyjafjallajökull. Í suðri blasa við Hestfjall, Mosfell og Vörðufell. Handan Brúarárskarða er Rauðafell, Klukkutindar, Skriðan, Skriðutindar og Skjaldbreið í framhaldi. Einnig sést Fanntófell við Kaldadal.
Brúarárskörðin.
Algengasta leiðin í Brúarárskörð er frá bæjunum við Hlíðina. Hægt er að aka lítið eitt inn með ánni í einskonar forsal hamrahallarinnar. Sé ætlunin að ganga upp er ágætt að fara inn í Hvamm en þar er rennislétt grasflöt undir skógi vöxnum hlíðum og er fallegra tjaldstæði vandfundið. Úr hvamminum hefur á síðustu árum myndast göngugata beint upp hlíðina. Gangan er mörgum erfið vegna þess að gatan liggur hvergi í sneiðingum og brekkan er snarbrött. Fullfrískt fólk er um 20 mínútur þarna upp. Brúarárskörðin eru um 3-4 km að lengd. Þar er eitt dýpsta og tröllslegasta gljúfur sýslunnar.
Göngustjóri Björg Halldórsdóttir
P.S. Tilvalið að koma við í Réttinni og fá sér hressingu eftir göngu.
Athugið að Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þó svo að göngustjóri sé með í för. Félagið hvetur fólk til að vera ferða og slysatryggt í ferðum sínum.
Með göngukveðju ferðanefndin