Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur 12. mars

ATH. breyting á upphafsstað göngu, farið inn á heiðina til norðurs fyrir ofan Hveradalabrekku

Nú verður fetað í fótspor forfeðranna og hluti af gömlu þjóðleiðinni yfir Hellisheiði gengin. Haldið verður frá þeim stað þar sem Sæluhús SVFÍ stóð á Hellisheiðinni og gengið þaðan í vesturátt að Hellisskarði sem er fyrir ofan Kolviðarhól. Sú leið er öll vörðuð axlarháum vörðum með jöfnu millibili. Á miðri leiðinni er haganlega hlaðinn kofi úr hellugrjóti sem veitti lúnum ferðalöngum húsaskjól í slæmum veðrum.

Þegar að Hellisskarði kemur verður haldið “milli hrauns og hlíða” og fylgt ökuslóða sem liggur áleiðis upp í Innstadal. Ekki verður farið þangað að þessu sinni heldur verður gengið til baka eftir nýlegri vörðulínu í átt að þeim stað þar sem ferðin hófst. Finni menn fyrir kláða í fótunum til að komast hærra upp þá er nóg af fjallstoppum á leiðinni sem leggja má af velli.

Gamla gatan yfir Hellisheiði
Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur Hellisheiði verið fjölförnust allra fjallvega á Íslandi. Það er því vel við hæfi að eyða dagsstund til þess að ganga þessar gömlu götur, sem blasir við sjónum, þegar ekið er yfir heiðina, en svo fáir þekkja af raun. Þegar komið er upp á heiðina nokkruð fyrir vestan Kambabrún ofan við Hveragerði kemur í ljós, röð af vörðum, sem liggja í beinni röð vestur á bóginn. Þessar vörður fylgja gömlu götunni yfir heiðina.

Við þræðum nú slóðina meðfram vörðunum. Þær standa margar mjög vel, þrátt fyrir lítið sem ekkert viðhald á síðustu öld. Ekki er vitað hver var upphafsmaður að þessari vörðuhleðslu, eða hver hlóð fyrstu vörðuna, en líklega hefur það gerst löngu áður en Hálfdan Jónsson ritaði fyrrnefnda lýsingu. Er vestar kemur á heiðina minnkar mosinn því þar er hún.. “víða með sléttum hellum og hraungrjóti, án gatna nema þar sem hestanna járn hafa gjört…”.

Þar liggja sönnunargögnin er sýna hversu fjölfarin heiðin hefur verið, því víða sjást djúpar götur markaðar ofan í stálharða klöppina,og eru þær dýpstu allt að ökkla djúpar. En brátt ber okkur að sérkennilegri byggingu, sem stendur á hæð skammt frá götunni hægra megin.Þetta er hellukofinn, gamla sæluhúsið á heiðinni. Hann ber við loft í skarðinu milli Stórareykjafells og Skarðsmýrarfjalls þegar ekið er eftir þjóðveginum og er til að sjáeins og kúptur, stór steinn.Hellukofinn var gerður á árunum milli 1830 og 1840 og stendur skammt þar frá, sem Biskupsvarðan fyrrnefnda stóð. Var grjótið úr vörðunni notað í kofann.Þórður Erlendsson, sem síðar bjó að Tannastöðum í Ölfusi hlóð kofann og ber hann meistara sínum fagurt vitni. Kofinn er ferhyrndur að lögun, 1.85 m á hvern veg oghæðin upp í mæni um 2 m. Hann er einvörðungu byggður úr hraunhellum. Eftir að fullri veggjarhæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið. Eru sömuvinnubrögð viðhöfð og Grænlendingar nota, þegar þeir byggja snjóhús. Efst er stór hraunhella sem lokar opinu. Dyrnar eru um 60 cm á breidd og 1 m á hæð. Til að þéttaveggina var mosa troðið í glufurnar. Kofinn stendur nærri 45. vörðu, talið austan frá.

Hann veitti oft hröktum mönnum skjól og til er rituð frásögn, er greinir frá því aðveturinn 1884 hafi gist þar 6 ferðamenn nótt eina í hríðarbil.
Er tekið fram að þeim hafi liðið ágætlega.

 

Heimildir: Á Slóðum F.Í og alnetið

Vegalengd: um 8 km
Göngutími: um 3 klst

Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í ódýrri líkamsrækt í góðum félagsskap.

Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 9:30, stundvíslega. Þar sem safnast verður saman í bíla.


Með kveðju Ferðafélag Árnesinga