Grafningur

Grafningur 19.apríl

Á tröllkonuslóðum í Grafningi, fyrir ofan Hestvík við Þingvallavatn, eru tveir tindar mjög áberandi.

Annar þeirra kallast Hátindur (425 m.y.s.) og rís eins og nafnið gefur til kynna til himins. Hinn heitir Jórutindur (396 m.y.s), í höfuðið á samnefndri tröllkonu er hafðist við á þessum slóðum fyrir margt löngu. Sá tindur er skörðóttur og ekki árennilegur viðureignar, rétt eins og Jóra tröllkona var á sínum tíma. 

Ganga á Hátind er ekki erfið og er verðlaunuð með gríðarlega fallegu útsýni yfir Hestvíkina og hæðótt landslagið í kringum hana. Nokkrar leiðir er hægt að fara á Hátind en sú sem verður fyrir valinu er úr Botnadal suð-austur af Hátindi. Suður úr Hátindi er hryggur sem er ákjósanleg uppgönguleið til að komast upp á topp.grafn. Medium

Af toppi Hátinds er eins og áður segir mjög fallegt útsýni yfir Hestvík, Þingvallavatn og nánasta umhverfi. Vestan megin við hann er Jórutindur sem er eins og skörðótt egg frá þessu sjónarhorni. Jórutindur er nánast allur úr veðursorfnum móbergsklettum. Skarð er á milli tindanna tveggja, af Hátindi er haldið sömu leið niður hrygginn, og um þetta skarð upp á Jórutind. Undir þessum tindum, fyrir neðan skarðið, lá þjóðleiðin austur í Grafning í fyrndinni. Vel má ímynda sér Jóru tröllkonu sitja fyrir grunlausum ferðamönnum í skarðinu og ráðast á þá þegar þeir áttu sér einskis ills von. Var hún alræmd fyrir athæfið og þurfti kóngs ráð til að slá kerlingu af, en það er önnur saga.

Þetta er ekki ýkja erfið ganga, smá klöngur og fláar á leiðinni.

 

Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 09:00, stundvíslega. Þar sem safnast verður saman í bíla, verð fyrir sæti kr.1000-. S

Ekið sem leið liggur upp að Nesjavöllum, haldið áfram eftir Grafningsvegi nr.360, til norðurs um 2,5 km. að upphafsstað göngunnar í Botnadal

Göngukveðja Ferðafélag Árnesinga

 

Vegalengd 7,5 km.
Byrjunarhæð 182 m
Mestahæð 425 m
Uppsöfnuð hækkun 550 m

Áætlaður göngutími 3 ½ klst.

GPS

Heimildir veraldarvefurinn