Göngum á Kyllisfell 6. september

Göngugleðin teymir fólk á Kyllisfell sunnudaginn 6. september. Mæting við Hornið(Samkaup) kl. 9:30, stundvíslega. Þaðan verður ekið upp á Ölkelduháls. Áætluð gönguvegalengd er 12-13 km og göngutími 4-5 klst. Sjá nánar hér á eftir.

 

Heiti ferðar: Kyllisfell.
Dagsetning: 6. sept. 2009 Vegalengd (áætl.): 12 – 13 kílómetrar Tími (áætl.) 4-5 klukkustundir
Stefnumótsstaður: Bílastæðið við Hornið(Samkaup) kl. 9:30, stundvíslega
Búnaður: Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing: Ekið sem leið liggur inn á Ölkelduháls. Til að komast þangað er beygt til hægri(vinstri) út af veginum yfir Hellisheiði, á beina kaflanum, nokkru eftir að komið er upp Kambana. Ekið er eftir veginum í gegnum hraunið og yfir Hengladalaá sem nú er búið að setja í ræsi, og áfram yfir Birtu og að aðal hverasvæðinu sem er undir Ölkelduhnúki þar sem gangan hefst.
Farið er eftir gönguleið yfir hverasvæðið undir Ölkelduhnúki yfir Ölkelduhálsinn um skarð þar sem hann er hvað lægstur og merktri gönguleið fylgt að línuveginum sem liggur meðfram “Rússalínunni”. Línuveginum fylgt upp á Folaldaháls, þar sem beygt er af veginum til norðausturs og farið eftir hálsinum upp á Kyllisfell (485 m.y.s). Norðan við Kyllisfell eru Katlatjarnir sem eru að öllum líkindum gamlir sprengigígar, sennilega frá ísöld, og eru tjarninar girtar hömrum þar sem þær liggja að Kyllisfelli.
Áfram er haldið norður eftir fellinu og hallar heldur undan fæti og gengið niður að Kattlatjörn neðri og snúið til suðvesturs og gengið meðfram tjörnunum og inn á merktan gönguslóða og til baka að Ölkelduhálsi þar sem gangan hófst.
Þetta er ekki sérlega krefjandi ganga. Vitaskuld verður eitthvað um “upp og niður” en mesta hækkun er um 200 metrar. Göngufæri er nokkuð gott, móar, melar og merktir slóðar.