Glymur-Hvalfell 10. júní

Þegar farið er að Glym er best að koma að honum sunnanmegin, þ.e. fara yfir Botnsá. Rétt fyrir neðan hið eiginlega gljúfur er farið yfir Botnsá á símastaur sem lagður hefur verið þar yfir og strengdur vír með til að styðja sig við. Þegar yfir er komið tekur við ganga upp með gljúfrinu eftir mjög greinilegum slóða. Mikið fuglalíf er í gljúfrinu og ber þar mest á Fíl en þó má sjá aðrar tegundir þar líka.

Tvær nípur eru áberandi á leiðinni sem vænlegir útsýnisstaðir. Af þeirri neðri sést aðallega neðri hlutinn af fossinum en af þeirri efri sést nánast allur fossinn.

Til að komast á Hvalfell er haldið áfram upp með gljúfrinu og upp fyrir fossbrúnina og þaðan er stefnan tekin nokkuð beint af augum til fjalls. Uppi á fjallinu er nokkuð slétt og auðvelt yfirferðar. Af Hvalfelli er glæsilegt útsýni og rétt að gefa sér góðan tíma til að njóta þess sem fyrir augu ber ef skyggni er gott. Einnig er gaman að fara fram á austurbrún fjallsins sjá yfir Hvalvatn og líta niður hinar klettóttu austurhlíðar Hvalfells. Hvar gengið verður til baka verður ákveðið á staðnum.

Þetta er nokkuð blönduð ganga, brekkur, bæði brattar og ekki, og víðast hvar prýðilegt göngufæri.

Glymur

Brottför frá Samkaup (Horninu) á Selfossi kl.08:30. Þar verður sameinast í bíla og sætisverðið er kr.1.500,-. Ekið sem leið liggur um Grafning og Kjósina upp í Botnsdal í Hvalfirði og alveg inn að Stóra-Botni og bílarnir skildir eftir í túnfætinum þar.

Reiknað má með að það taka u.þ.b. 90. mín að keyra upp í Botnsdal frá Selfossi. Þau sem koma beint frá R.vík svæðinu, þá er reiknað með því að lagt verður af stað í gönguna um kl:10:00.

Göngustjóri verður Daði Garðarsson

 Vegalengd: um 12. km
Göngutími: 5.klst
Byrjunarhæð: 60m
Mestahæð: 852

GPS :  glymur og hvalfell

Athugið að Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þó svo að göngustjóri sé með í för. Félagið hvetur fólk til að vera ferða og slysatryggt í ferðum sínum.

Með göngukveðju ferðanefndin