Geirhnjúkur 29. júlí

Geirhnjúkur er 898 m.

ATH. breytt dagsetning

Brottför frá FSU kl. 7:00. Ekið á eigin bílum inn að Hítarvatni en þetta er um 2,5 klst. akstur. Ekið er sem leið liggur upp í Borgarnes og þegar þangað er komið er tekin vegur númer 54 vestur Mýrar. Eftir um 20 mín. akstur er beygt til hægri, vegur nr. 539 Hítardalur, og honum fylgt nánast að bænum í Hítardal þar sem vegurinn skiptist. Farið er til vinstri og eftir örstuttan spotta blasir Hítardalsrétt við. Þar hittum við göngustjórann, Höllu Eygló Sveinsdóttur, um kl. 9:00. Þar getur fólk sameinast frekar í bíla ef það vill. 347388549 10159664360605838 3606477374509545491 nVegurinn frá Hítardalsrétt inn að Hítarvatni er frekar seinfarinn en fær öllum bílum. Gangan á Geirhnjúk hefst við suðurenda Hítarvatns, nánar tiltekið við Fjallhús Hraunhreppinga. Ættum að vera að leggja af stað í gönguna um kl. 9:30. Gangan á fjallið er fremur auðveld en löng. Leiðin liggur fyrst yfir Hítará á stíflunni við Hítarvatn og síðan meðfram vatninu að Neðri-Snjódal en þar höldum við á brattann í rólegheitum. Þegar upp úr dalnum er komið göngum við meðfram Snjódalahyrnu og þá fer fljótlega að sjást í Geirhnjúk, en enn er nokkur hækkun eftir og í lokin smá príl upp á sjálfan hátindinn. Geirhnjúkur sést víða að frá aðalveginum og á góðum degi er útsýni af honum til allra átta, yfir Snæfellsnesfjallgarðinn, vestur í Dali, út á Reykjanes og upp í Borgarfjörð. Á bakaleiðinni göngum við fram á Skálarkamb en þar er gott útsýni yfir Hítarvatn og fjöllin í kringum það. Þá tökum við stefnuna á Klifsgil en þar förum við niður Hvítingshjalla og niður að stíflu nema fólk kjósi að vaða Hítará en með því má stytta leiðina aðeins. Þá er stefnan tekin beint á Fjallhúsið. Vegalengd 16-18 km. Gönguhækkun um 750 m. Göngutími 8-9 klst.
Muna að taka með flugnanet og nóg af nesti, en þetta er í það minnsta þriggja nestisstoppa ferð því við ætlum að njóta en ekki þjóta. Ef óskað er frekari upplýsinga er hægt að senda göngustjóranum Höllu Eygló skilaboð.
Endilega fylgist vel með veðurspá því ef veðrið er betra á sunnudeginum munum við seinka göngunnni til sunnudags. Ef ekki er hægt vegna veðurs að ganga á Geirhnjúk tökum við hring í kringum Hítarvatn með viðkomu í Bjarnarhelli en þar er að finna fornar rúnir. Gott væri að þeir sem ætla að mæta merki sig MÆTI/GOING ekki síðar en á föstudagsmorgun 14. júlí.
Athugið að Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þó svo að göngustjóri sé með í för. Félagið hvetur fólk til að vera ferða- og slysatryggt í ferðum sínum.
Með göngukveðju ferðanefndin