Fjölskyldan á fjallið

Fjölskyldan á fjallið er landsverkefni UMFÍ, og er liður í verkefninu Göngum um Ísland. Settir eru upp póstkassar með gestabókum á rúmlega 20 fjöll víðsvegar um landið.
HSK mun taka þátt í verkefninu fjölskyldan á fjallið líkt og undanfarin ár en verkefnið er nú haldið í 10. sinn.  HSK hefur alltaf tilnefnt tvö fjöll og eru fjöllin því orðin 20 að tölu. Gíslholtsfjall í Holtum og Bjarnafell í Ölfusi urðu fyrir valinu í ár.
Göngugarpar eru hvattir til að skrifa nöfn sín í gestabækurnar á fjöllum. Á hverju hausti er dregið úr hópi þátttakenda og hljóta hinir heppnu sérstök útivistarverðlaun.

 

Farið verður á Gíslholtsfjall þann 19. Maí kl. 19:00 og þar verður göngustjóri Sverrir Kristinsson

Gíslholtsfjall í Holtum

Gísholtsfjall í Holtum er grasi gróið fjall sem er 168 m.y.s. og er auðvelt uppgöngu.

Best er að ganga á fjallið skammt frá bæjarhlaðinu í Gíslholti, en bærinn stendur við fjallið. Best er að leggja bílnum innan túngirðingar, vegna hættu á lakkskemmdum (hross) og ganga þaðan á fjallið. Göngutími er um tvær klukkustundir. Lausaganga hunda er bönnuð á svæðinu.

Til að komast að Gíslholtsfjalli er farið upp Landveg nr. 26 frá Landvegamótum (þaðan eru 11 km að Gíslholti)  og svo inn á Hagaveg  nr. 286, rétt áður en komið er að Laugalandi. Svo er beygt inn á Heiðarveg nr. 284 við Gísholtsvatn. Einnig er hægt að fara inn á Heiðarveg nr. 284   af þjóðvegi 1, rétt  austan við Þjórsárbrú. Þaðan eru 9 km að Gíslholti.

Gott útsýni er af fjallinu og sést vel til austurfjalla, láglendi Suðurlands og um uppsveitir.


Á Bjarnafell verður farið þann 31.maí kl. 19:00 og þar verður göngustjóri Bergur Guðmundsson.

Bjarnafell í Ölfusi

Bjarnafell í Ölfusi er 380 m yfir sjó og er frekar létt uppgöngu sem tekur um tvær klukkustundir.

Til að komast að Bjarnafelli er ekið eftir þjóðvegi 1 milli Hveragerðis og Selfoss og  beygt upp Hvammsveg nr. 374.  Stoppað við garðyrkjubýlið Nátthaga eða farið að sumarhúsabyggð sem er merkt Gljúfurbyggð. Þar er bílum lagt og gengið upp með Æðargili upp á Bjarnafell. Byrjunarhæð er í um 80m yfir sjó og lengd göngunnar er um 6 km.

Af Bjarnafelli sést vel yfir Ölfusið allt frá Þorlákshöfn og austur eftir hluta flóans. Einnig sést vel yfir neðri hluta Grafnings og yfir í Grímsnesið ásamt mikilli fjallasýn til norðurs og vesturs.

Útsýni af Bjarnarfell í suður


ganga.is