Fimmvörðuháls 22. júní

Fimmvörðuháls er ein af vinsælustu gönguleiðum landsins.

fimm
Vegalengd 22. km
Áætlaður göngutími 9 – 10 klst.
Lóðrétt hækkun 1000 metrar
Farið verður með rútu frá FSU kl. 6.00 að morgni 22. júní og farið að Skógum þar sem gangan hefst.
Verðum sótt í Þórsmörk kl. 18.00
Hægt er að geyma farangur í rútunni yfir daginn .
Greiða þarf fyrir farið. Félagsmenn í FFÁR greiða 5.000- kr og aðrir 10.000- kr.
Reikningur 0189-26-001580, kt:430409-1580 og senda kvittun í SMS 8682553
Göngustjórar eru ú hópi FFÁR: Kristján Snær Karlsson, Sævar Gunnarsson, Kristjörg Bjarnadóttir og Olgeir Jónsson

Athugið að Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þótt göngustjóri sé með í för.
Félagið hvetur fólk til að vera með ferða og slysatrygginu á ferðum sínum. 

Sjá nánar hér að neðan.

 

Gangan hefst við Skógarfoss með því að gengið er upp tröppurnar austan við fossinn. Mælt er eindregið með því að fólk fari rólega af stað upp tröppurnar, sem eru margar og taka í. Við tekur augljós göngustígur sem liggur upp Skógaheiði, austan Skógaár. Fossarnir sem við blasa eru hverjum öðrum fallegri og gaman er að gefa sér tíma til að skoða þá. Þegar komið er að göngubrú yfir Skógaána eru um 8 km að baki og hér er gott að fylla á vatnsbrúsana því framundan er ekki hægt að ganga að neinu vatni vísu.
Frá göngubrúnni er hægt að velja um tvær leiðir. Sú austari og fjölfarnari liggur að mestu meðfram akveginum upp í Baldvinsskála. Þetta er stysta leiðin en frá göngubrú og í Baldvinsskála eru rúmlega 4 km. Hins vegar er stikuð gönguleið sem liggur vestar (vinstra megin), meðfram Skógaá vestari og upp í Fimmvörðuskála sem liggur hærra en Baldvinsskáli. Frá göngubrú og upp í Fimmvörðuskála er tæp 7 km ganga um vestari leiðina.
Í Baldvinsskála er kamar og aðstaða til að borða nesti en ekkert rennandi vatn. Frá skálanum liggur leiðin að mestu yfir fannir yfir Fimmvörðuhálsinn sjálfan. Leiðin er stikuð og oftast greinileg þegar líða tekur á sumar og margir hafa markað slóð í snjóinn. Eftir um það bil 3 km göngu frá Baldvinsskála er komið að Goðahrauni sem rann í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi vorið 2010 úr tveimur gígum, Magna og Móða og er gaman að ganga upp á þá báða eða annan. Upplýsingaskilti er við gosstöðvarnar.
Skammt frá liggur leiðin framhjá vörðu og minnismerki um þrjú ungmenni sem urðu úti á hálsinum árið 1970. Þá er stutt í að leiðin liggi niður í móti og fyrst verður fyrir Brattafönn sem síðsumars stendur illa undir nafni enda hafa loftslagsbreytingar gert það að verkum að fönnin getur þá verið horfin. Fólk þarf að fara hægt niður Bröttufönn hvort sem farið er á snjó eða á móberginu sem undir leynist. Fyrir neðan Bröttufönn er Heljarkambur sem er nokkurs konar hryggur sem tengir Fimmvörðuháls við Morinsheiði. Settar hafa verið keðjur til stuðnings yfir þennan hluta leiðarinnar sem er stuttur og vel fær, líka fyrir lofthrædda, þrátt fyrir illúðlega nafngiftina.
Marflöt Morinsheiðin er næst. Hægt er að sveigja af leið til vinstri og fara þá niður Hvanngil eða jafnvel yfir Útigönguhöfða en hefðbundna leiðin liggur beint áfram og niður bratta brekku undir Heiðarhorni. Stígurinn er mjög greinilegur hér og fallegt útsýni yfir Goðland. Ekki líður á löngu þar til komið er á Kattahryggi sem margir lofthræddir óttast mjög. Búið er að laga stíginn um hryggina svo að þeir eru ekki ýkja ógnvænlegir en þó er ástæða til að fara þar varlega.
Síðasti spölurinn er stuttur en brattur um fallega göngustíga í ilmandi kjarri meðfram Strákagili. Sums staðar hafa verið settar upp stuðningslínur. Þegar niður er komið er best að beygja til vinstri og yfir göngubrú yfir Strákagilslækinn. Þaðan er hægt að fylgja göngustíg í Bása að skála Útivistar eða áfram um göngubrú yfir Krossá og í skála Ferðafélagsins í Langadal. Á milli Bása og Langadals eru um 2 kílómetrar.

Með göngukveðju ferðanefnd.