Ármannsfell

Ármannsfell  26. júní

    Ekið sem leið liggur til Þingvalla. Skammt vestan við Þjónustumiðstöðina er beygt til hægri inn á veginn sem liggur áleiðs að Uxahryggjum, Kaldadal og niður í Borgarfjörð. Ekið eftir þeim vegi, þar til komið er að skilti á vinstri hönd sem vísar að eyðibýlinu Svartagili þar sem gangan hefst.

Sagnir herma að í Ármannsfelli hafi búið þurs nokkur er Ármann hét sem hafi haft það m.a. að starfa að skipuleggja kappglímur milli kynbræðra sinna og blendinga á Hofmannaflöt undir Meyjarsæti. Þessar uppákomur hafa nú verið aflagðar fyrir allnokkru.
Leiðin liggur upp tunguna á milli Klömbrugils og Bæjargils með rólegri hækkun upp í s.k. Skál. Úr Skálinni tekur svo við smá bratti upp á misgengið sem klýfur fjallið þvert, og ef vel er að gáð, má sjá að það er nokkuð í línu við Þingvallasigdældina. Brún misgengisins fylgt upp á hæsta koll Ármannsfells (768 m.y.s). Á leiðinni upp er rétt að virða fyrir sér útsýnið. Á hægri hönd, mót suðri sést vel yfir Þingvelli og á vinstri hönd, mót norðri ber mest á Botnssúlum en þeirra hæst er Syðsta-Súla (1094 m.y.s). Heiðin á milli Botnssúlna og Ármannsfells heitir Gagnheiði. Á móti austri eru svo Hrafnabjörg, Kálfstindar og Lyngdalsheiði. Þegar upp á Ármannsfellið er komið blasir Skjaldbreiður við og handan hans má sjá glitta í Hlöðufell. Fyrir neðan, norðan við Ármannsfell eru svo Sandkluftir og Sandkluftavatn.
Á niðurleiðinni verður farið yfir á næst hæsta koll Ármannsfells (741 m.y.s) og þaðan niður á Stórhól (454 m.y.s) og svo niður tunguna milli Svartagils og Klömbrugils, þangað sem gangan hófst.
Þetta er svona miðlungs strembin ganga. Göngufæri er eftir smágrýttum melum, en þegar ofar kemur verður öllu grýttara undir fæti.
 

Vegalengd: 10. km
Göngutími: 3 – 4 klst
Byrjunarhæð: 160m
Mestahæð: 768m

GPS-leið

Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, hvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í göngu í skemmtilegum félagsskap.
Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 10:00, stundvíslega. Þar sem safnast verður saman í  bíla.

Heimildir: veraldarvefurinn og könnun á vettvangi

Með göngukveðju Ferðafélag Árnesinga