Akrafjall

Akrafjall 23. júní

Akrafjallið og umhverfi þess er sannkölluð paradís fyrir útivistarfólk.  Gönguferð á fjallið er tiltölulega auðveld og útsýnið ægifagurt.  Fjallið gnæfir eins og útvörður byggðarinnar á Skipaskaga.  Það er sporöskjulöguð og formfögur fjallabunga sem stendur á nesinu á milli Hvalfjarðar og Leirárvogs.

Talið er að fjallið sé gömul eldstöð, en jökull hafi gengið yfir það og sorfið af því allar hvassar brúnir landmegin, en síðan steypst fram dal sem klýfur það vestanmegin og nefnist Berjadalur.  Bungan sunnan í hlíðum dalsins heitir Jókubunga.  Eftir dalnum rennur Berjadalsá.  Norðan árinnar kallast fjallið Norðurfjall og sunnan hennar Suðurfjall.  Sitt hvoru megin dalsins rísa tveir tindar.  Heitir sá nyrðri og hærri Geirmundartindur (643m) en hinn syðri Háihnúkur (555m).  Guðfinnuþúfa er drangur neðan Geirmundartinds.  Meginefnið í fjallinu er basalt, en víða eru rauðleit móbergslög milli blágrýtislaga.  Greinilegar sjávarmyndanir finnast umhverfis fjallið og í því, þær hæstu ofan við bæinn Kúludalsá í 70 m hæð.  Hvalbein hafa fundist í 80 m hæð við bæinn Fellsenda.

Gönguferðir á Háahnúk eru vinsælar.  Þar er gestabók sem Skagamaðurinn Jón Pétursson kom þar fyrir 4. janúar 1997.  Í góðu skyggni er fagurt útsýni af tindum fjallsins.  Botnssúlur og Esjan blasa við.  Í norðri blasir Skarðsheiðin við og fjöllin á Mýrunum og Snæfellsnesi.  Hinn tignarlegi Snæfellsjökull lokar þessum fagra fjallahring.

Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í ódýrri líkamsrækt og göngu í skemmtilegum félagsskap.

Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 9:00, stundvíslega, þar sem safnast verður saman í bíla,verð fyrir sæti 2000-kr.

Vegalengd um16 km.
Hækkun um 600 m.
Göngutími 5-6 klst.

GPS til viðmmiðunar