Dagmálafjall 10. september
Af hlaðinu í Stóru-Mörk blasir við manni allhátt fjall, Dagmálafjall, sem einnig er eyktarmark. Á þetta fjall ætlum við að ganga. Þó svo fjallið blasi við frá Stóru-Mörk er sennilega best að ganga á það frá Syðstu-Mörk. Er þá gengið í norðaustur frá bænum skáhallt upp hlíðina. Fljótlega verður á vegi okkar allsérkennilegt mannvirki.
Þetta er vatnsból þeirra Vestmannaeyinga. Eftir því sem ofar dregur minnkar samfelldur gróður. Þó er talsvert af gróðurtorfum sem staðfestir að hér er talsverður uppblástur. Við komum nú að gili sem kallað er Kambagil. Inn með þessu gili göngum við og höfum það á hægri hönd. Þetta er hrauntröð og eru upptök hraunsins í stórum skeifulaga, rauðleitum gjallgíg sem opinn er til austurs. Þarna heitir Rauðahraun. Austan við Rauðahraun er hringlaga dalverpi sem nefnist Magridalur. Þægilegt er að ganga eftir hryggnum norðan dalsins. Þar blasir við okkur rismikið og allbratt fjall. Þetta er Dagmálfjall, 968 m hátt. Þarna uppi er geysivíðsýnt og ægifagurt útsýni til allra átta. Í góðu skyggni má sjá allt vestur á Reykjanes og Vestmannaeyjar og Fljótshlíðin með Heklu í bakgrunni sjást mjög vel. Innan við Fljótshlíðina eru Þórólfsfell, Tindfjöll og Tindfjallajökull. Þá tekur við svæðið á gönguleiðinni á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Þar heita Almenningar og Emstrur. Eyjafjallajökull blasir við í austri. Niður af fjallinu göngum við í vestur með stefnu á Hornfell og Hádegishnjúk
Vegalengd: um 14. km Göngutími: um 6. klstByrjunarhæð: 100 m
Mestahæð: 968 m GPS Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í göngu í skemmtilegum félagsskap. Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 09:00, stundvíslega. Þar sem safnast verður saman í bíla,mælst er til þess að þeir sem vilja nýta sér sæti hjá öðrum borgi 1000. kr. fyrir sætið, eða frjáls framlög Heimild:alnetið,Leifur Þorsteinsson
Göngukveðja Ferðafélag Árnesinga,