Ferðasaga – Þakgil / Mælifell

Síðasta göngugleði sumarsins heppnðaist einstaklega vel. 26 félagsmenn mættu ásamt Sigurði Hjálmarssyni leiðsögumanni úr ferðafélagi Mýrdælinga og Áslaugu Einarsdóttur konu hans.

Ekið var inn í Þakgil og gengið þaðan á Mælifell og hring til baka aftur. Leiðin inn í Þakgil liggur framhjá ferðajónustustórbýlinu á Höfðabrekku og þaðan er fólksbílafært inn í þakgil. Þó ekki á allra lægstu bílum. Leiðin er vel merkt og liggur um frábært landslag, en mikið bætist við í gönguferðunum.

Í Þakgili er búið að koma upp ágætri ferðajónustuaðstöðu, með tjaldsvæði og nokkrum smáhýsum til að gista í. Þaðan liggja svo merktar gönguleiðir um nágrennið. Einnig liggur jeppaslóði langleiðina af gönguleið okkar uppeftir og áfram inn að jökli. Við fylgdum ekki öllum jeppaslóðanum, heldur beygðum af leið ofarlega og tókum stefnuna á Mælifell, þaðan sem er mikið og gott útsýni. Einnig brugðum við okkur aðeins út af slóðanum á uppleið og kíktum fram af brúnum ofaní næstu dali.

Landslag þarna er allt mjög stórskorið. Landið er byggt upp af móbergi og sandsteini úr þjöppuðum öskulögum og síðan skorið sundur af lækjum og vatnshlaupum frá Kötlu. Þarna skiptasta því á margra hæða blokkir með grónum heiðum ofaná og djúpum dölum á milli. Útsýni yfir næsta umhverfi er því stókostlegt, og ekki spillir að sjá má austur  yfir Álftaver og Meðalland, til sjávar og á Hjörleifshöfða.

Leiðsögn Sigurðar Hjálmarssonar, frá Ferðafélagi Mýrdælinga, bætti svo um betur. Sögur um fólk og fénað sem nýtir og nytjað hefur þessa náttúru, leiðir sem fé og smalar þurfa að þræða og ekki eru á allra færi að komast um. Mörgum ferðafélaganum þótti nóg um smá einstigi sem þurfti að þræða undir lok ferðarinnar ofan af heiðinni.

Heildar gönguleiðin var rúmir 13 km og var gengin á um 6 klst. Þetta er ferð sem allri göngufærir fjölskyldumeðlimir geta tekið þátt í. Þó verður að gæta vel að börnum.