Sveifluhals

Sveifluhálsinn 12. apríl

Veðurspáin fyrir næsta laugardag er frekar ókræsileg. Ferðin á Sveifluhálsinn verður sunnudaginn 12. apríl. Með kveðju frá ferðanefnd

Sveifluhálsinn liggur vestan við Kleifarvatn, er um 15 km langur móbergsháls með nokkrum tindum. Við ætlum að ganga frá Vatnsskarði, upp á Hellutinda og Stapatind (sem er hæstur tindanna á hálsinum 397 m y.s.) þaðan niður í Folaldadali og til baka að bílunum.
Ökum veg nr 42 (Krísuvíkurveg), ef komið er frá Hafnarfirði þá er eftir nokkra km á hægri hönd vegslóði 428 sem liggur inn að Vigdísarvöllum, beygjum inn á þann vegslóða og leggjum bílunum rétt við vegamótin en þar er upphafsstaður göngunnar.sveifluhalsinn Leiðin er um 13 km löng, áætlaður göngutími 5 klst, samanlögð hækkun um 800 m. Falleg útsýnisleið og nokkuð þægileg fyrir fólk í góðu gönguformi. Munum göngubroddana (það getur verið þörf á þeim), skjólgóðan klæðnað, orkuríkt nesti og heitt á brúsa.Lagt af stað frá Samkaup (Horninu) Selfossi kl 8:00 þar sem safnast er saman í bíla (að venju er 1000 kr eldsneytisgjald fyrir þá sem fá far með öðrum) og við miðum við að ganga af stað kl 9:00. Við minnum fólk á að virða göngustjórn, gönguhraða og að leggja ekki af stað fyrr en göngustjóri hefur lagt af stað. Göngustjóri verður Birna María Þorbjörnsdóttir.
ATH. Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þó svo að göngustjóri sé með í för. Félagið hvetur fólk til að vera ferða- og slysatryggt í ferðum sínum.
Ferðafélag Árnesinga