Súlufell 26. mars
Gangan hefst við vegslóða sem liggur upp að Kattatjörnum (Katlatjörnum), en slóðinn liggur meðfram Súlufellinu að vestanverðu. Við rætur Súlufells er farið út af slóðanum og stefna tekin til fjalls þar sem við tekur frekar brött brekka og er þar tekin er rúmlega 100 metra hækkun. Eftir þá brekku er rólegur stígandi þar til toppurinn nálgast en þá er snörp hækkun uns honum er náð.
Af Súlufelli er ágætis útsýni til norðurs yfir Þingvallavatn og yfir svo yfir næsta nágrenni og að Henglinum. Hærri fjöll eins og Kyllisfell (485 m.y.s.) og Hrómundartindur (524 m.y.s.) skyggja nokkuð á útsýni í þá áttina, þ.e. í suðurátt. Í beinu framhaldi af Súlufelli er Kattatjarnarhryggur, sem liggur fyrir ofan s.k. Kattatjarnir (Katlatjarnir) og tengir saman Súlufell og Kyllisfell.
Göngufæri er eins og reikna má með á þessum árstíma, snjór og hálka svona almennt orðað. Raunhækkun á leiðinni er um 300 metar, misbratt, vegalengd um 8.km, göngutími um 3. klst.
GPSÂÂ til viðmiðunnar
Mæting er að venju við „Hornið“ á Selfossi kl. 09:00, sameinast í bíla og haldið áleiðis upp í Grafning. Munið eldsneytispening 1000 kr. fyrir þá sem fá far með öðrum.
Við minnum einnig á fatnað og búnað við hæfi, gott nesti og því að sjálfsögðu verður tekin nestispása.
Athugið að Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þó svo að göngustjóri sé með í för. Félagið hvetur fólk til að vera ferða- og slysatryggt í ferðum sínum.
Með kveðju frá ferðanefnd