Strandarkirkja – Hælisvík 16. febrúar
Við hefjum för okkar af hlaðinu hjá Strandarkirkju, en öldum saman hefur fólk heitið á hana í tengslum við alls konar erfiðleika í lífi þess og peningar streyma inn vegna áheita. Hún telst því auðugasta kirkja landsins og er vel viðhaldið af þeim sökum. Núverandi kirkja er frá 1888, og hefur verið endurvígð tvisvar vegna endurbóta.
Herdísarvík í Selvogi er vestasta jörð í samnefndri vík í Árnessýslu, best þekkt fyrir tvennt að Einar Benediktsson skáld bjó þar í um áratug uns hann lést árið1940. Það síðara er Herdísarvíkur-Surtla, en árið 1951 var ákveðið vegna mæðuveikinar að Suðurland yrði fjárlaust eitt ár til að koma í veg fyrir smit við fjárskiptin, varð hver kind að nást af fjalli. Frægasta ær síðari tíma, er fyrr nefnd Herdísarvíkur-Surtla, neitaði hún með öllu að láta góma sig, en hún var skotin á færi 31.ágúst 1952, eftir að fé var sett til höfuðs hennar.
Krísuvíkurbjargið er með lang stærstu fuglabjörgum landsins. Þar verpa um 60.000 fuglapör, mest rita en líka langvía, álka, stuttnefja og fýll, og eitthvað af lunda, toppskarf, silfurmáf og teistu. Efst á bjarginu er viti sem var reistur árið 1965. Við bjargið hafa orðið nokkrir skipsskaðar, eins og þegar Steindór GK strandaði þar 1991 og Þorsteinn GK 1998. Í báðum þessum tilvikum varð mannbjörg.
Mæting er við Samkaup (Hornið) kl.09:00,stundvíslega,langur dagur fyrir höndum(fótum). Þar sameinustum við í bíla og ökum að Strandarkirkju þar sem gangan hefst, rúta mun svo sækja okkur í lok göngu, sem er áætlað að endi í Hælisvík. Verð fyrir sæti í rútunni er kr. 1000-kr. Það er svo samkomulagsatriði milli þeirra sem ferðast saman í bíl, hvernig þeir deila þeim kostnaði á milli sín.
Vegalengd: 20-25 km.
Göngutími: 6-7 klst.
GPS til viðmiðunar
Kveðja Ferðafélag Árnesinga