Stóra Kóngsfell – Þríhnjúkar 9.mars

 Stóra-Kóngsfell og Þríhnjúkar 9. mars Skömmu áður en við komum að skíðaskálanum í Bláfjöllum yfirgefum við bílinn við Eldborgina, en það er reglulega lagaður og mosavaxinn gígur vestan við veginn. Götuslóði liggur upp á gígbarminn og er sjálfsagt að ganga þangað upp. Gígurinn er reglulega lagaður, um 200 m í þvermál og um 30 m djúpur. Frá Eldborginni hafa runnið mikil hraun og munu lengstu hraunstraumarnir hafa runnið alla leið niður í Lækjarbotna. Eldborgin var friðlýst árið 1971. Eftir að hafa skoðað Eldborgina tökum við stefnu á Stóra-Kóngsfell sem ber við loft í vesturátt. Við göngum fram hjá allstórum móbergshnúk, sem nefnist Drottning.277222778 10158820008685838 3587989029185458441 n Fær hann efalaust þetta nafn vegna nálægðar við Kóngsfellið, sem er miklu ábúðarmeira til að sjá. Stóra-Kóngsfell er um 596 m y.s. og þaðan er frábært útsýni yfir nágrennið og til strandarinnar við Faxaflóann. Þar hafa hraunstraumar runnið upp að hlíðarrótum og þar sem hraun og malarskriður mætast eru jafnan gott að ganga. Efst á Kóngsfellinu er merkjavarða því þar koma saman landamerki fjögurra sveitafélaga þ.e. Reykjavíkur, Kópavogs, Selvogshrepps og Grindavíkur. Vestan við fellið eru nokkrir smágígar sem vekja forvitni, bæði sökum lögunar og fjölbreytni í litum. Aðalgígarnir eru þrír og sá vestasti þeirra er mestur. Gígarnir og þetta eldbrunna svæði umhverfis Kóngsfellið er mjög áhugavert og væri unnt að dvelja þar lengi dags, en tíminn líður og gönguferðinni er ekki lokið enn. Vestan við Kóngsfellið eru Þríhnúkarnir og þeir verða næst á leið okkar. Þríhnúkarnir eru fornar eldstöðvar og segir í sögum að þeir séu meðal“sérstæðustu eldstöðva á Reykjanesskaga bæði hvað snertir útlit eldstöðvanna sjálfra og eins hraun, sem frá þeim hafa komið”. Þar hafa orðið tvö gos að minnsta kosti og í síðara gosinu mun austasti hnúkurinn hafa myndast. Upp á þann hnúk munu við öll ganga, því gígurinn er opinn og því skoðunarverður.thrihnjukar Hann er lóðréttur, nokkuð á annað hundrað metra á dýpt, en nokkrir fullhugar hafa sigið til botns í gígnum, og töluverður fjöldi ferðamenn sem hefur verið slakað þangað niður fyrir greiðslu. Það er óhugnanleg tilfinning að standa á gígbarminum og horfa niður í kolsvart gímaldið. Er þá eins gott að gæta sín og kunna vel fótum sínum forráð. Þeir sem hafa mesta unun af hressandi gönguferð með víðsýni til allra átta fá einnig nokkuð fyrir snúð sinn því útsýnið yfir strandlengjuna við Faxaflóann er frábært, hvort sem staðið er á Stóra-Kóngsfelli eða Þríhnúkum. Það þekkja þeir sem þangað hafa komið.

Vegalengd: um 9-10 km Göngutími: um 3-4 klst. Byrjunarhæð: 440. m Mestahæð: 596. m Heimild:F.Í og veraldarvefurinn .
Farið verður kl. 8.30 frá FSU Selfossi, þar sem safnast verður í bíla, verð fyrir sæti kr 1.000-
Göngustjóri Daði Garðarsson og Stefán Bjarnarson
Athugið að Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þó svo að göngustjóri sé með í för. Félagið hvetur fólk til að vera ferða og slysatryggt í ferðum sínum.
Með göngukveðju ferðanefndin