Skarðsmýrarfjall 17.nóvember
Ekið er sem leið liggur upp á Hellisheiði beygt inn á heiðina til norðurs fyrir ofan Hveradalabrekkuna eftir vegi sem liggur inn á borsvæði Orkuveitu Reykjavíkur fyrir ofan Hellisskarð þar sem gangan svo hefst.
Vegslóði liggur sunnan undir Skarðsmýrarfjallinu (597 m.y.s) og er ágætt að fylgja honum eftir því sem hentar. Þetta er forn leið og var fjölfarin fyrrum milli Grafnings og byggðarinnar við Faxaflóa. Með því að halda sig austanmegin á fjallinu má sjá klofning mikinn í fjallinu, sem er í raun misgengissprunga sem sneiðir eitt horn af fjallinu. Förum við upp með þessu misgengi eins og okkur best hentar. Þegar upp á fjallið er komið er haldið áfram norður af því.
Af Skarðsmýrarfjalli er komið ofan í Innstadal, sléttann og grasi gróinn. Handan hans má sjá inn í Hveragil þar sem leynist stór og mikill gufuhver. Haldið er austur eftir Innstadal og um dalverpi þar sem nokkrir skátaskálar leynast. Eftir að dalverpunum sleppir er komið niður á veglsóða og gengið er eftir honum “milli hrauns og hlíða” þangað sem gangan hófst.
Þetta er ágætlega fjölbreytt gönguleið, raunhækkun er rétt um 200 metrar. Ágætis útsýni er yfir Hellisheiðina af fjallinu. Innstidalur hefur alltaf svolítinn sjarma yfir sér þar sem hann leynist umgirtur fjöllum og hryggjum allt um kring. Göngufæri er gott, vegslóðar og smágrýttir melar og engar skaðræðis brekkur á leiðinni.
Svo segir um Skarðsmýrarfjall í greinagerð OR um fornleifar á Hellisheiði:
Eftir rækilega athugun á heimildum og á vettvangi hefur komið í ljós að engar minjar er að finna á Stóra-Skarðsmýrarfjalli. Þar er að mestu uppblásinn melur, ísaldargrús að sunnan, en stórgrýttara að norðanverðu. Fjallið er að mestu gróðursnautt, einungis þunnir mosaflákar á stöku stað, einkum þó á norðanverðu fjallinu.
Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 9:30,stundvíslega, þar sem safnast verður saman í bíla,verð fyrir sæti 1000-kr.
Vegalengd: um 10 km.
Göngutími: um 3 klst.
Byrjunarhæð 390 m.
Mestahæð: 597 m.