Selvogsgata

Selvogsgata 4. maí

Frá Bláfjallavegi það sem við leggjum í hann, blasir Kristjánsdalahornið við í austri með Kristjánsdalabrúnum, sem eru einskonar öldur og vestan þeirra grænir Kristjánsdalir. Austar eru Þríhnjúkar en til vesturs teygir sig Lönguhlíðin með Hvirfilinn hæstan og liggur hún allt vestur að Lönguhlíðarhorni.

Leiðin liggur eftir varðaðri leið upp í skörðin um Kerlingaskarðsstíg og þegar komið er upp á brúnina er hægt að velja nokkrar leiðir. Ef haldið er til hægri, suðvestur með hlíðinni er stefnan tekin á Brennisteinsfjöllin og Kistufellið. Þar eru minjar sem eru óðum að hverfa. selvogurEf ætlunin er hinsvegar að fylgja Hlíðarskarsleið er einfaldast að halda beint af augum og ganga eftir varðaðri leið í gegnum hraunið. Þar er Hvalfellið mest áberandi. Það er líka hægt að ganga hina eiginlegu Selvogsgötu sem við ætlum að fara núna, en hún liggur austan við hraunstíginn, í skorningum suðvestan undir hæðarhryggjum sem nefnast einu nafni Heiðin há, að Stóra Leirdal. Þar tekur Hvalskarðið við milli Hvalfells og Ásanna. Þegar komið er að Austur Ásum liggur leiðin vestan þeirra áleiðis að Vestur Ásum sem rísa upp úr landinu nokkru sunnan við Austur Ása. Landið fer nokkuð lækkandi á þessari leið þó ekki fari að halla verulega undan  fæti fyrr en komið er fram á suðaustur brúnina. Þar liggur leiðin niður Katlabrekkur og blasir þá Suðurlandið við, Selvogurinn og Hlíðarvatnið.

Mæting við Samkaup kl. 9:00 stundvíslega. Þar verður safnast saman í rútu, fargjald  2500 kr. Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta.

 

 

 

 

Vegalengd: um 16 km 
Göngutími: 5-6. klst 
Landslag: Gönguleiðin liggur um mosa og hraun
Byrjunarhæð: 220m 
Mestahæð: 490m
Lokahæð: 15m

GPS til viðmiðunar

Göngukveðja Ferðafélag Árnesinga