Reykjanes

Grænadyngja og Trölladyngja 18. okt.Bleika-slaufan-ein-copy

 

Móbergshálsarnir á Reykjanesi eru mjög áhugaverðir til gönguferða og eru þar mörg fjöll sem gaman er að ganga á. Hálsarnir eru tveir sem ganga langsum eftir nesinu vestan við Kleifarvatn, Austurháls (Sveifluháls) og Vesturháls (Núpshlíðarháls). Trölladyngja (379 m y.s.) og Grænadyngja (402 m y.s.) eru hæstu fjöllin á Vesturhálsinum og eru mjög áberandi frá Reykjavík þar sem þau standa í fjallaröðinni austan við Keili. Hækkun er ekki mikil á fjöllin og er því tilvalið að fara hring um svæðið með viðkomu á báðum tindum.
Upphafstaður göngunnar er við Eldborg norðan við Höskuldarvelli vestan við Vesturháls.
Ekin er Reykjanesbrautin og þegar komið er að gatnamótum Vatnsleysuströnd / Keilir er sveigt út af brautinni og farið til vinstri undir brautina og inn á malarveg sem merktur er Keilir. Þá þarf að aka 1,5 km og beygja til hægri inn á slóða sem liggur austur Afstapahraun að Höskuldarvöllum. Þar leggjum við bílum við Eldborg norðan við vellina. Vegalengdin þangað frá Reykjanesbraut er um 9,4 km.

Vegalengd göngu: 7-9 km (eftir því hvaða leið er gengin)
Göngutími: ca 3 klst
Heildarhækkun: ca 400 m

Brottför frá Samkaup (Horninu) á Selfossi kl 9:00
Þeir sem koma af höfuðborgarsvæðinu geta sameinað sig í bíla á N1 í Hafnarfirði kl 9:45 og ekið þaðan að upphafsstað göngu