Mosfell 19. janúar
Mikið og fallegt útsýni er af Mosfelli, þar sést vel um allt Grímsnes og uppí Biskupstungur og Laugardal.
Til að komast að Mosfelli frá Selfossi er ekinn vegur nr. 35 (Biskupstungnabraut). Farið er í gegnum þéttbýlið á Borg og framhjá Laugarvatnsafleggjara ( nr. 37). Frá Laugarvantsafleggjara eru um 5 km. að Mosfelli sem er á vinstri hönd og blasir við frá þjóðveginum.
Mosfell er landnámsjörð Ketilbjarnar gamla, en hann nam Grímsnesið allt upp frá Höskuldslæk, Laugardal og Biskupstungur. Sagan segir að hann hafi átt ógrynni silfurs og viljað koma því á öruggan stað svo hann lét þræla sína tvo, Haka og Bót grafa silfrið. Eftir að þeir grófu silfrið drap hann þá báða, Haka í Hakaskarði og Bót í Bótaskarði svo enginn yrði til frásagnar um hvar silfrið mikla væri að finna.
Þegar gengið er upp á fjallið frá kirkjustaðnum Mosfelli er farið upp Bótaskarð en Hakaskarð er norðan við bæinn Sel, þar ætlum við niður og göngum síðan norður og vestur fyrir fellið. Á Mosfelli hafa sennilega verið kirkjur frá kristnitöku, en núverandi kirkja er frá árinu 1848.
Kveðja Ferðafélag Árnesinga