Marardalur 20. mars
Undan farið höfum við verið austan Hellisheiðar en nú skulum við færa okkur
vestur yfir Heiðina og heimsækja Marardalinn, en það er sigdæld undir vesturbrún Skeggja,
en svo nefnist hæsti hluti Hengilsins. Dalurinn er luktur hömrum á alla vegu, en botn hans
er flatur og grasi gróinn, einn þeirra unaðsreita, sem er að finna í nágrenni höfuðborgarinnar.
Við ökum aðeins inn fyrir Hellisheiðarvirkjun og leggjum bílnum við mynni Sleggjubeinsdal.
Meðan við erum að undirbúa gönguna sakar ekki að líta á hamrabelti Stóra-Reykjafells, sem rís fyrir sunnan. Í klettunum gætum við séð vangamynd af Matthíasi Jochumssyni skáldi, sem skaparinn hefur mótað í bergið og kemur skýrt í ljós þegar horft er á klettinn úr þessari átt, svo framalega að hann verði ekki hulinn gufustrók frá Hellisheiðarvirkjun. Nú er lagt á brattan. Við göngum upp Húsmúlann, en svo nefnist hæðin fyrir norðan Kolviðarhól vestur af Henglinum. Tvö gil, Mógil vestar og Þjófagil austar liggja þar samhliða. Við göngum eftir hryggnum milli þeirra og svo norður yfir Múlann. Við erum á götuslóðum og sjálfsagt að fylgja þeim ofan í Engidalinn, sem er handan við háhæðina. Við göngum fyrir botn dalsins og höldum inn með hlíðinni. Dalurinn þrengist smátt og smátt. Innst í honum austanverðum er smá lækur, sem nefnist Engidalsá og á upptök sín hér á þessum slóðum. Við fylgjum læknum og innan stundar ber okkur að þröngu einstigi sem lækurinn rennur eftir. Við fylgjum læknum og þurfum að vaða hann af og til, en að lokum enda þessi þrengsli og við blasir Marardalurinn, sporöskjulöguð dalkvos, umgirt klettum á alla vegu.Það er undarleg tilfinning sem grípur mann að ganga inn eftir dalnum, vera algjörlega úr sambandi við umhverfið, sjá ekkert nema dökka klettaveggi á allar hliðar, bláan himinn (vonandi) og sléttan dalbotninn. Dalurinn er hátt í kílómetra að lengd við gefum okkur góðan tíma, setjumst niður,tökum upp nestisbitann og söfnum kröftum fyrir heimferðina. Þessi dalur á sína sögu, eins og svo margir aðrir staðir á þessum slóðum. Fyrr á öldum ólu bændur hér naut til slátrunar. Þegar þau eltust urðu þau oft ill viðureignar. Segir sagan að bændur í Ölfusi hafi rekið naut í Marardal og hlaðið grjótvegg fyrir einstigið og geymt þau þar. Seint á 18. öld voru hreindýr flutt til Íslands frá Finnmörku. Nokkur þeirra voru sett á land á Reykjanesi og lifðu þau villt á þessu væði í meira en öld. Sagt er að síðasta dýrið hafi verið drepið í Marardal.
Síðar, þegar frístundum fjölgaði hjá vinnandi fólki, var oft efnt til útreiðatúrar frá Reykjavík og þá lá leiðin að Kolviðarhóli m.a. Aðrir brugðu sér þá inn með Húsmúlanum og enduðu í Marardal, sem var vinsæll áningarstaður í slíkum ferðum. Þegar við höldum til baka getum við valið um fleiri en eina leið.
Sumir leggja á brattan og fara upp hlíðina og á Skeggja, aðrir ganga sömu götu til baka, en einnig má leggja smá lykkju á leiðina og ganga í kringum Húsmúlann. Þetta er hæg og skemmtileg leið. Sléttir vellir eru fyrir framan Húsmúlann, sem heita Bolavellir. Það nafn segir sína sögu. Gömul sögn segir að einhvern tímann komi til styrjaldar á Íslandi. Úrslitaorrustan á að fara fram á Bolavöllum, en ekki fylgir sögunni, hverjir berjast og hver vinnur þá orrustu.
Við suðvestur enda Húsmúlans eru nokkrar tjarnir. Ein þeirra heitir Draugatjörn. Við hana eru rústir af gömlu sæluhúsi, sem vitað er að stóð þar árið 1703. Mörgum ferðamanninum gekk illa að nátta sig í þessu húsi, því löngum þótti þar reimt. Eru til ýmsar sögur því til staðfestingar, m.a. flugust sumir á við þessa drauga og komu skaddaðir úr þeim viðureignum. Þegar komið var fram á fyrri hluta 19. aldar var þetta sæluhús komið að falli og þurfti að endurbyggja það. Töldu menn þá skynsamlegast að reisa nýja húsið upp á Kolviðarhól, þótt erfiðara væri þar með vatn. Húsið á Hólnum reis svo 1844 og þar var svo sæluhús og síðar gistihús í rúma öld. Á ýmsu gekk með gestgjafana fyrstu áratugina en á árunum 1906-1943 bjuggu þar hjónin Sigurður Daníelsson og Valgerður Þórðardóttir við mikla reisn. Síðustu árin Valgerður ein, þá orðin ekkja.
Nú er búið að jafna öll mannvirki á Kolviðarhóli við jörðu nema steinsteyptur grafreitur þeirra hjóna, sem stendur suður í túninu.
Frá Draugatjörn og rústum gamla sæluhússins er stutt ganga að bílnum. Þar endum við að þessu sinni.
Með því að smella á myndirnar stækka þær.
Vegalengd: 15 km
Göngutími: 4-5. klst
Byrjunarhæð: 280m
Mestahæð: 440m
Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í göngu í skemmtilegum félagsskap. Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 9:30, stundvíslega. Þar sem safnast verður saman í bíla.
Göngukveðja Ferðafélag Árnesinga
Heimildir: FFAR og F.Í