Landmannalaugar 13. ágúst
Helstu kennileiti á gönguleiðinni:
Laugahraun: Í jaðri þessa hrauns koma upp hinar frægu heitu lindir Landmannalauga, með öllu tilheyrandi ferðamannafári. Upphafskafli Laugavegarins liggur þaðan yfir hraunið. Þetta dökka, grófa hraun (rýólít með hrafntinnuslikju) kom upp í öxl Brennisteinsöldu árið 1480.
Vondugil: Gil milli Brennisteinsöldu og Háöldu. Námskvíslin á helstu upptök sín þar. Innan um brattar líparítskriðurnar eru vænar gróðurtorfur þar sem hverir af ýmsum gerðum frussa og hvæsa, ásamt tilheyrandi litadýrð. Stutt og auðveld gönguleið liggur þangað af Laugaveginum, sunnan Laugahrauns. Aðgát skal höfð á auðspilltu landi.
Háalda: Eitt af hærri fjöllunum í nágrenni Landmannalauga (1089 m.y.s.) og hluti af vinsælli en langri dags-gönguleið, svolítið brött. Af henni er afar víðsýnt en nærumhverfið er líka fallegt, m.a. Höfðavatn.
Stórihver: Kraftmikill gufu- og goshver ofan Austurdala. Að sumra mati eru upptök Markarfljóts í honum. Hann er á miðri hásléttunni milli Landmannalauga og Hrafntinnuskers og er gróðurvinin hjá honum vinsæll áningarstaður þeirra sem ganga Laugaveginn.
Brennisteinsalda: Mikil litadýrð ásamt rjúkandi hverasvæði hafa gert þetta fjall að nokkurskonar einkennisfjalli Landmannalaugasvæðisins.
Fyrsti hluti Laugavegarins liggur upp með því, þar sem upptök Laugahraunsins láta mikið fyrir sér fara. Þetta er með vinsælasta gönguleið landsins, og vel merkt. Þaðan er stutt og auðratað upp á topp, í 855 m.y.s.
Grænagil: Gil milli Bláhnúks og Laugahrauns. Vinsæl gönguleið í næsta nágrenni Landmannalauga. Nafnið kemur frá grænum lit líparítsins neðst í Bláhnúki, fremst í gilinu.
Bláhnúkur: Það fjall sem næst stendur Landmannalaugum og er lang vinsælasta fjallgöngufjallið, brattur en vel troðinn og greinilegur stígur, útsýnisskífa efst.
Nær gróðurlaust, 945 m.y.s., u.þ.b.50.000 – 90.000 ára fjall úr súru gjóskubergi. Það er að hluta til úr biksteinshúðuðum hraunbólstrum og miklum glersalla.
Byrjunarhæð: 600 m
Mestahæð: 1089 m GPS Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í göngu í skemmtilegum félagsskap. Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 08:00, stundvíslega. Þar sem safnast verður saman í bíla, nú vantar sérstaklega bifreiðar sem geta keyrt inní Laugar, mælst er til þess að þeir sem vilja nýta sér sæti hjá öðrum borgi 1000. kr. fyrir sætið, eða frjáls framlög
Lagt verður af stað í gönguna frá bílastæðinu sem er við afleggjarann inn að skálavarðarhúsinu um kl:10:15 árdegis. Heimild :landmannalaugar.info
Göngukveðja Ferðafélag Árnesinga, GSM 897-0769 (Daði)