Ingólfsfjall

Kvöldganga á Ingólfsfjall 12. maí

Um leið og félagið vill þakka en og aftur fyrir glæsilega metþátttöku í gönguna síðasta vetradag á Ingólfsfjall, en í þá göngu mættu 60. manns, höfum við ákveðið að vera með álíka kvöldferð 12.maí n.k.(frídagur daginn eftir).Von okkar er að sjá ykkur sem flest í þá göngu.

Ingólfsfjall í Ölfusi er 551m hátt og er það hömrum girt á þrjá vegu og mjög hlíðabratt.  Þegar sjávarstaða var hæst í ísaldarlok hefur það verið sæbrattur höfði sem brimið braut niður og skapaði þá hinar bröttu hlíðar.

Það er tengt Grafningsfjöllum með Grafningshálsi.  Ingólfsfjall er einkum gert úr móbergi með hraunlögum inn á milli einkum að neðan og í kolli.  Ingólfsfjall hefur orðið til um miðja ísöld.  Suður úr vesturhorni fjallsins skagar grár klettamúli Silfurberg sem er úr móbergi með ljósum holufyllingum sem aðallega eru geislasteinaútfellingar.  Þar suður af er Kögunarhóll og liggur þjóðvegurinn á milli. Ef það hefur farið fram hjá einhverjum þá er Ingólfsfjallið kennt við landnámsmanninn Ingólf Arnarson.  Uppi á fjallinu er grágrýtishæð sem heitir Inghóll og segja munnmæli að þar sé Ingólfur heygður.   
 
Við hefjum gönguna austan við fjallið, upp af bústaðnum hennar “tengdamömmu” eins og hann er kallaður á góðum dögum. Byrjunin á göngunni er þó nokkuð brött, en þegar upp er komið liggur Suðurlandið fyrir fótum okkar. Ef við skoðum aðeins fjallahringinn sem er næst okkur, má byrja að telja t.d. Botnsúlur, Ármannsfellið,Hrafnabjörgin, Kálfstinda, Skjaldbreið, Efstadalsfjall. Og ef við færum okkur aðeins austar má sjá Heklu, Þríhyrning, en á það fjall förum við laugardaginn 15. maí n.k, Tindfjöllin, gosstöðvarnar í Eyjafjallajökli og Vestmannaeyjar þar sem þær kúra undan suðurströndinni.

Ætlunin er að ganga með suður brúnum fjallsins,horfum ofan á Selfoss, fram hjá uppgönguleiðinni úr Djúpadal, og velja niður leið austur af Arnarnípu, efst við brúnina þarf að hafa nokkra aðgæslu, einkum vegna lausra steina á móberginu, en með varúð er ekkert að óttast. Valmöguleiki er að fara hefðbundna leið niður með Þórustaðarnámuni.

 

 

 

 

Vegalengd: 5-6. km
Göngutími: um 3 klst
Byrjunarhæð: 60m
Mestahæð: 420m

Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, hvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í göngu í skemmtilegum félagsskap.
Mæting er við  Þórustaðarnámu kl. 19:15, stundvíslega. Þar verður safnast saman í rútu og okkur keyrt austur fyrir fjallið að upphafsstað göngunnar, gjald kr. 500-.
Útbúnaður: hlífðarfatnaður, eitthvað að maula og drekka og þar sem gangan er að kvöldi til og við gætum lent í því að það verði farið að skyggja í lok göngunnar, er mælt með því  að taka með sér ljós.

Með göngukveðju Ferðafélag Árnesinga