Hestfjall

Hestfjall 3. mars

Enn leggjum við í’ann, nú er áætlunin að fara á Hestfjallið eitt af þekktari fjöllum í Grímsnesinu.
Gengið er á Hestfjallið frá bænum Vatnsnesi, en tún bæjarins ná nánast að fjallinu. Eins og áður sagði er Hestfjallið eitt af þekktari fjöllum í Grímsnesi.

Þar í og við áttu stóru Suðurlandsskjálftarnir árið 2000 upptök sín. Hestfjall er um 320 metrar á hæð og er nær alveg umflotið vatni. Fjallið er nánast eins og þríhyrningur í lögun og er hæst nyrst en þar heita Hesteyru. Talið er að frá hátindi þess sjáist til yfir 20 kirkna. Austan og sunnan þess rennur Hvítá en Hestvatn liggur að vestan og norðvestan.

Hestfjall er eldfjall frá Ísöld, stapi með grágrýtisþekju á móbergsgrunni. Bólstraberg er neðst (sem myndast í sjó) og leifar af eldgýg eru við Hesteyru. Sunnan í fjallinu sjást greinilega brimhjallar frá ísaldarlokum þegar Suðurlands-undirlendið lá ennþá undir sjó. Talið er að fjallið hafi hlaðist upp með jaðri ísaldarjökulsins á nýlegu hlýskeiði ísaldar og hindrað framrás hraunsins til norðurs og austurs. Hestfjall er af þeirri gerð fjalla er nefnist dyngja, en norðurhlutann vantar. Dyngja myndast við flæðigos og er gosopið yfirleitt kringlótt. Dyngjur gjósa oftar en einu sinni. Frá dyngjum renna helluhraun sem oft geta þakið stór landsvæði. Hér á landi eru um 20—30 dyngjur myndaðar á nútíma. Dyngjur eru sjaldgjæfar erlendis.
Það er mjög breytilegt eftir því úr hvaða átt er horft til þess. Úr norðaustri er það hnúkvaxið, en sé horft til fjallsins austan af Skeiðum leynir dyngjulagið sér ekki en norðurhlutann vantar eins og áður segir. Suðurbrúnin er brött þar sem hraun rann í sjó fram.
Þar sem fjallið nær lengst til norðurs framundan Hesteyrum heitir Snoppa, örskammt frá Hvíta.
Af Hestfalli sér um byggðir Suðurlands og sér á haf út allt til Vestamannaeyja. Í vestri sést yfir Hestvatn til Ingólfsfjalls og hægra megin við það er Búrfell í Grímsnesi. Þar til hægri kemur Lyngdalsheiði og austan hennar Kálfstindar og fjöll við Laugardal, Laugarvatnsfjall og Efstadalsfjall. Enn austar kemur svo Hlöðufell og nær Rauðafell, Högnhöfði og Kálfstindur. Lengra til hægri tekur við Bjarnarfell og síðan Jarlhettur og Bláfell við Kjalveg. Vörðufell á Skeiðum og Mosfell í Grímsnesi sjást miklu nær. Þá sér upp Hvítá við ármót hennar og Brúarár. Að baki þessara fjalla hyllir í Langjökul. Í norðaustri sést Búrfell í Þjórsárdal og Hekla, Bjólfell og Selsundsfjall. Þá taka við Tindfjöll og Þríhyrningur og þar á bak við Mýrdalsjökull, Eyjafjallajökull og Seljalandsmúli fram af. 

Gömul munnmæli segja að göng liggi undir fjallinu og að í þeim sé ægilegt skrímsli. Ef hins vegar skrímslið skríður burt mun Hvítá falla inn í göngin og þá þornar fyrir neðan þau.

Sjáumst glöð og hress við Hornið kl:09:30

Vegalengd: um 5-7 km
Göngutími: um 3. klst

Göngukveðja Ferðafélag Árnesinga

Heimild:
Fólk á fjöllum
Mynd Reynir Bergmann