ATH. Gott að lesa allan póstinn.
Sumarferð Ferðafélags Árnesinga á Grenivík, dagana 7. til 10. júlí.
Leiðsögumaður okkar er Birna Kristín Friðriksdóttir en hún verður með okkur alla dagana. Hún er frá Grenivík og þekkir svæðið því mjög vel. Gistingu og fæði verður hver að sjá um fyrir sig, en það er þó stefnt að því að snæða saman kvöldverð á laugardagskvöldinu á Kontornum. Gott tjaldsvæði er á Grenivík og einhverjir hafa þegar bókað sig í gistingu þarna á svæðinu. Stutt er til Akureyrar ef einhverjir hafa hug á að gista frekar þar. Mælum eindregið með að fólk mæti á svæðið á fimmtudagskvöld 6. júlí því farið verður snemma af stað á föstudagsmorguninn 7. júlí. Gott væri að stefna að því að hittast t.d. á tjaldstæðinu á Grenivík um kl. 20 á fimmtudagskvöldinu til að fara yfir skipulagið á föstudeginum.
Gönguskipulagið er eftirfarandi (leiðsögumaðurinn hefur þó fulla heimild til að breyta dagskránni eftir veðurfari):
Dagur 1, föstudagur 7. júlí
Gengið á Laufáshnjúk og síðan suður eftir fjöllunum Kræðufelli og Ystuvíkurfjalli og niður í Víkurskarð. Vegalengd um 13 km en þessi fjöll eru um 700m há.
Dagur 2, laugardagur 8. júlí
Gengið á Kaldbak. Kaldbakur er fjall við Eyjafjörð norður af Grenivík og er hluti af fjallakeðju sem einu nafni nefnist Látrafjöll. Fjallið er 1.173 m hátt og hæst fjalla við norðanverðan Eyjafjörð að austan.
Dagur 3, sunnudagur 9. júlí.
Söguganga frá Grenivík, kringum Þengilhöfða (jafnvel gengið á höfðann) og suður Höfðahverfi og svo til Grenivíkur. Þetta er hringferð, ca. 16 km og ekki mikil hækkun.
Heimferð mánudaginn 10. júlí eins og hver vill.
Ekki er nauðsyn að skrá sig sérstaklega en endilega merkja sig MÆTI/GOING þeir sem ætla að koma.
Hulda og Halla sjá um skipulag