Göngugleði á Geitafell um hvítasunnu

Gönguferð á Geitafell, sunnudaginn 31. maí
Eins og venjulega þegar við höldum í hann á sunnudegi þá er stefnumótsstaðurinn á bílastæðinu við Hornið kl. 09:30 stundvíslega, og þaðan verður ekið vestur Eyrabakkaveg um Þrengslaveg að Litla-Sandfelli.

                                
Lýsing:
Fell þetta hefur haft aðsetur síðustu árþúsundin suðaustan í Heiðin Há. Geitafell blasir við vegfarendum er þeir aka um Þrengslaveg, þjóðveg 39, láti þeir á annað borð augun hvarfla um nágrennið enda stendur það eitt og sér upp úr flatlendinu í næsta nágrenni.
Lagt verður upp frá malarnáminu í Litla-Sandfelli og gengið þaðan yfir móa og mosa í átt að Geitafelli. Þar sem verður farið upp er nokkuð bratt en skánar strax þegar upp er komið. Niðurleiðin verður öll undan fæti og ekki mjög brött.
Búast má við að þessi hringur sem verður farinn sé um 10 km og taki á fimmta tíma, allt eftir gönguhraða. Að venju verður honum stillt í hóf og enginn skilinn eftir. Ekki verður um nema 300 metra raunhækkun um að ræða til að komast á toppinn.
Vegalengd (áætluð) 10 kílómetrar. Tími (áætlaður) 4-5 klst.