Gjábakkahellir 15. nóvember
Hellirinn liggur undir veginn milli Gjábakka og Laugarvatns um tvo kílómetra frá eyðibýlinu Gjábakka. Hellirinn er opinn í báða enda og er neðra opið rétt neðan vegarins og merkt með lítilli vörðu. Meginlína hellisins er um 310 metrar en heildarlengdi hans er um 364 metrar.
Hellirinn er töluvert hruninn en hefur samt margt að bjóða hellaförum, til dæmis er þar alla jafna töluvert um ísmyndanir. Þá eru þar separ, totur, spenar, storkuborð og ýmsar aðrar hraunmyndanir sem gleðja augað. Á einum stað er hellirinn á tveimur hæðum og á kafla má velja tvær leiðir áfram. Önnur lokast þó fljótt svo enginn ætti að villast, í það minnsta kosti hvorki lengi né illa. (Björn Hróarsson – Íslenskir hellar, tekið af síðu Ferlis http://www.ferlir.is/
Brottför frá Samkaup (Horninu) á Selfossi kl. 9:00. Þar verður sameinast í bíla og sætisverðið er kr. 1.000,-
Ragnar Hólm verður göngustjóri í ferðinni, en hann er vanur hellamaður.
Nauðsynlegt er að hafa höfuðljós meðferðis, hjálm (má vera reiðhjólahjálmur) og góða vettlinga. Þá mælum við með því að fólk mæti í fatnaði sem má verða fyrir hnjaski.
Hugsanlega þarf að ganga smá spöl að hellismunnanum (u.þ.b. 2 km), það fer eftir ástandi vegarslóðans.
Kveðja Ferðafélag Árnesinga