Fjallgöngumessa á Ingólfsfjalli
Sunnudaginn 10. júlí verður fjallgöngumessa á Ingólfsfjalli. Lagt verður af stað frá malargrifjunum kl. 15 og gengið í rólegheitum upp fjallið. Lesnir verða viðeigandi ritningartextar áður en lagt er af stað og svo tvisvar á leiðinni upp. Þegar upp er komið verður stutt helgistund með hugvekju, bæn og söng. Prestur í fjallgöngumessunni verður sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson. Um nýbreytni í helgihaldinu er að ræða en þar sem svo margir leggja leið sína á fjallið í viku hverri þótti við hæfi að bjóða fólki upp á að slá tvær flugur í einu höggi með því að fara á fjallið og ná sunnudagsmessunni um leið! Vonast er til að allt göngufólk á svæðinu fjölmenni í fjallgöngumessuna en samveran á að henta vel fólki á öllum aldri. Fjallgöngumessan er skipulögð í samráði við Fríska Flóamenn og fleira áhugafólk um útivist á svæðinu. Sjáumst á sunnudaginn við fjallið kl. 15 – allir velkomnir!