Ferðasaga – Ferðin á Hrómundartind

Smellið til að stækaÞað voru 10 manns sem mættu galvaskir í göngu, þrátt fyrir að veðurútlit væri ekki upp á það besta. Þungbúið var og skyggni lítið en veður sæmilega stillt. Ekið var upp á Hellisheiði inn á Ölkelduháls. Má segja að sá er þetta ritar hafi ekki kannað veginn nægilega vel því hann reyndist hálf ófær. Þó tókst að koma Cheerokee bíl Sigga Óla á leiðarenda með því að ýta aðeins í gegnum skaflana. Halldór Ingi vildi ekkert svona kæruleysi og beið eftir syninum sem ekur einum öflugusta og frægasta fjallabíl landsins.

Þá var tekið til við gönguna. Hrómundartindur er 561 metra hár og er hæsta fjall í Grafningi að Henglinum og Ingólfsfjalli undarskildu. Eiginlega er um að ræða þrjá tinda. Fyrstur er Tjarnarhnjúkur, fagurlöguð gjallkeila með tjörn í botninum. Siðan er haldið að Lakaskörðum en Lakahnjúk var sleppt enda smá glöngur fram af honum. Því næst liggur leiðin norður af Hrómundartind og farið er niður af honum og til baka gengið Tindagil. Merkilegt að sjá hvað Hrómundartindur er sundurtættur eftir jarðskjalftana. Undir Hrómundartind er kvikuhólf og er oft litið á það sem sjálfstætt eldstöðvakerfi. (Undir Henglinum er annað kvikuhólf). Þar fannst gott skjól til að njóta matarins. Mest lækkun er af Hrómundartind niður í Tindagil eða um 350 metrar og síðan tekur við  um 200 metra hækkun upp á Ölkelduháls. Komið er út úr gilinu skammt frá Kattatjörnum og er þaðan haldið eftir merktri gönguleið upp á Ölkelduháls.

Þetta reyndist vera um 9 km leið og gangan tók um 4 klst. Þokkalega rættist úr veðri, smá strengur rétt áður en komið var upp á Hrómundartind. Aksturinn til baka gekk talsvert ver. Stórir ferðaþjónustubílar voru búinir að útvaða skaflana og  varð Cheerokee nú að una því að vera dreginn yfir verstu torfærurnar. Kom sér vel að hafa stóra jeppann til dráttarins.

Smellið á mynd til að stækka hana.

Fleiri myndir eru í galleríi.