Búrfell Þingvallasveit

Búrfell Þingvallasveit 23. apríl

Mörg fjöll á Íslandi bera sama nafn eins og Búrfell.  En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar.

Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla. Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu eða eins og segir á vef Örnefnasafns Stofnunar Árna Magnússonar og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“ Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn. Talið er að það séu a.m.k. 47 fjöll hér á landi sem bera nafnið Búrfell.

Í næsta nágreni við okkur eru sex fjöll sem heita Búrfell og svo skemmtilega vill til að öll þessi fjöll sjást af Henglinum. Fyrst teljum við Búrfell í Heiðmörk en það fellur oft í skuggann af hinni formfögru Búrfellsgjá. Síðan Búrfell við Miðdal, og ekki ber mikið á Búrfelli við Hlíðarenda í Ölfusi en þaðan er fagurt að líta yfir suðurströndina. Þessi fjöll eru ekki há, en næsta fjall er Búrfell í Grímsnesi við topp fjallsins er vatn og í því mun vera silungur en einnig er fallegur steinbogi í hlíðum fjallsins. Búrfell í Þingvallasveit er eitt þeirra fjalla sem mynda hinn fagra fjallahring í kringum þingstaðinn og þaðan er tilkomumikið útsýni, það er fjallið sem við erum að fara á. Síðasta fjallið sem er nefnt hér er Búrfell í Þjórsárdal en þar eiga tröllskessur sér athvarf.

Vonandi vekur þessi ferð á Búrfellið áhuga göngumanna á því að fara á önnur fjöll með sama nafni og kanna hvað er líkt og kannski einnig hvað er ólíkt með þessum fjöllum. Þó svo að sex fjöll séu nefnt hér er alltaf hægt að skella sér á Búrfell því þau eru vítt og breitt um landið auk þess sem frekar auðvelt er að ganga á þau. Það er gaman að safna fjöllum, það fer lítið fyrir þeim í geymslunni og það þarf ekki að þurrka af þeim rykið nema kannski aðeins af minningunum um góða ferð. Komdu með á Búrfell!

Vegalengd: 13. km
Göngutími: 4-5. klst
Byrjunarhæð: 140m
Mestahæð: 783m

1613688433gonguskor2

Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í göngu í skemmtilegum félagsskap.
Mæting er við Samkaup (Hornið) kl. 9:30, stundvíslega. Þar sem safnast verður saman í bíla.

Göngukveðja Ferðafélag Árnesinga

Heimild:veraldarvefurinn