Bruarskord

Brúarskörð 4. október

Brúará fellur úr Brúarárskörðum sem eru á milli Högnhöfða og Rauðafells. Áin er talin um 44 km löng og vatnsmagnið 40 rúmmetrar á sek. Lengst af rennur Brúará í djúpu gljúfri og eiga göngumenn eftir að heyra lætin í henni þar sem hún beljar fram.

 

Brúarárskörð eru eitt dýpsta gljúfur á Suðurlandi. Má benda á að þegar ekið er yfir Brúarárbrúna á leiðinni frá Laugarvatni að Úthlíð er vel þess virði að nema staðar og horfa til fjalla því Brúrarárskörðin sjást einna best þaðan úr byggð. Þá ber Hlöðufell í Skörðin, 1186 m hátt. Vestan megin við þau er Rauðafell 924 m og austan megin er Högnhöfðinn 1002 m Bruarskord

Talið er að Skörðin hafi orðið til þegar gos var undir jökli og Högnhöfðinn varð til á síðasta stóra kuldaskeiði ísaldarinnar. Þá var Rauðafell þegar til. Síðar hefur jökullinn legið í Skörðunum lengi eftir að fjöllin voru komin upp úr honum og grafið þau enn dýpra.

Skörðin eru 3-4 km löng. Nyrst er áin vatnslítil og liðast í fallegum bugðum eftir gili. Þarna skiptast á grastorfur og skriður og er landslagið allt hið hrikalegasta. Fyrst steypist áin í litlum og snotrum fossum niður í dýpri farveg og loks í háum fossi niður í þröngt og skuggalegt hyldýpi sem tekur vinkilbeygju til austur og ógnvekjandi er að líta niður í. Þetta sést vel af austurbrúninni við Kúadal.

Lítill og snarbrattur hnúkur ber í Skörðin og kallast hann Strokkur. Hann er 517 m og fer skriða úr hnúknum beint ofan í Skörðin. Þar er varasamt að fara yfir en ansi freistandi fyrir smala að stytta sér leið. Er það kallað Tæpistígur, sem er náttúrlega enginn stígur heldur varasöm leið utan í skriðunni.

Síðan liggur leiðin niður í Tangann svokallaða en þangað ættu flestir að fara sem leggja leið sína í Skörðin. Á leiðinni niður á Tangann eru greiðfærar skriður ofantil, síðan mosi og berjalyng, en neðantil er Tanginn fallega gróinn grasi. Þar er lítil uppsprettulind innan um dýjamosa, fegurð hennar er merkileg andstæða við stórbrotið umhverfið. Austast úr Tanganum sést framúr gljúfrinu og þar skynjar maður mikilfengleik þeirra og stærð. En til þess að sjá aðalfossinn sem ævinlega er í skugga, verður að ganga fram á grasivaxna brúnina við fossinn. Þar þarf ekki að vera hættulegt sé varlega farið en fossinn sést ekki einu sinni vel þaðan.

** Athugið að það þarf að skrá sig í þessa ferð með því að senda póst á ffarnesinga@gmail.com (fyrir miðnætti 2. október – ekki nóg að skrá sig bara hér á viðburðinum) svo við vitum hvað við þurfum stóra rútu. Verð fyrir sæti í rútunni er 2500 kr og greiðist þar í reiðufé. **

Brottför frá Samkaup Selfossi kl 9:00 – það verður rúta í þessa ferð þar sem slóðinn fyrir ofan Úthlíð er ekki fólksbílafær.

Vegalengd: 7-8 km
Göngutími: ca 3 klst
Hækkun: 300-400 m

Heimild: uthlid.is

INNLEGG