BOTNSSÚLUR 28. júlí.
Eitt af mest áberandi og eftirtektarverðu fjöllunum í nágrenni Þingvalla eru Botnssúlur. Kannski Skjaldbreiður nái að fanga augað frekar sökum reglulegar lögunnar sinnar. Oftar en ekki fá Botnssúlur að fljóta með í bakgrunni á myndum af Þingvöllum þar sem þær teygja sig hnarreistar til himins.
Gangan sem við ætlum að fara í dag hefst við Svartagil sem er á milli Botnssúlna og Ármannsfells.
Gömul leið liggur upp brekkurnar frá Svartagili yfir Gagnheiði, sem er á milli Súlnabergs og Ármannsfells (um 600 m y.s.), austan við Botnssúlur og Hvalvatns og til efstu bæja í Skorradal og Lundarreykjadal. Þessi leið var nokkuð farin áður fyrr því hún er greiðfær og létt undir fæti. Nú eiga fáir þar leið um, helst fótgangandi fólk eins og við í skemmtiferð. Af Gagnheiði og undan Súlnabergi kemur Súlnagil, en nóg er um gil á þessu svæði, t.d að áður nefndu Súlnagili eru Krókagil, Svartagil, Sláttugil, Hrútagil og Klömbrugil.
Göngutími: um 8-10 klst.
Mestahæð: 1095. m