Alviðra – Inghóll

Alviðra – Inghóll 20. apríl

Kveðjum veturinn með kvöldgöngu á Ingólfsfjallið

Um leið og félagið vill þakka fyrir glæsilega metþátttöku í gönguna síðasta vetradag á sl. ári, en í þá göngu mættu 60. manns. Höfum við ákveðið að vera með álíka kvöldferð 20. apríl n.k. síðasta vetradag (frídagur daginn eftir).Von okkar er að sjá ykkur sem flest í þá göngu.

Upphafsstaður göngunnar er frá Alviðru bænum, síðan upp um Gönguskarðið í brún Ingólfsfjalls, þaðan á Inghóll (551) og stefnum síðan á suður brúnir fjallsins upp af Djúpadal, þar sem gestbókin bíður okkar.

Þetta er svolítið brött byrjun, en engum verður meint af því.

Helstu upplýsingar um Alviðru: Land allt upp að Inghól í Ingólfsfjalli, lítt gróið. Við rætur fjallsins er gamall sjávarkampur, þurr og gróinn. Neðar er blaut mýri alveg niður í Sogið. Annars staðar þurrir móar, nú ræktaðir. Landið er grösugt og girt neðan fjallsins. Enn fremur fylgdi Alviðrunni kjarrivaxið hraun austan Sogsins úr landi Öndverðarness í Grímsnesi. Hlunnindi eru lax og silungsveiði í Soginu. Árið 1973 gaf Magnús Jóhannesson Árnessýslu og Landvernd þessa jörð.

Smá dæmi úr sögu Alviðru, það var einhverju sinni, að mannýgur graðungur elti varnarlausan umrenning eða flakkara, sem orðinn var gamal og hrörlegur mjög. Komst maðurinn þó undan nautinu upp á Hrútastein sem er á mörkum Alviðru og Tannastaða og varðist þaðan. Hélt maðurinn sig upp á steininum mikið af degi, þar til hann sást heiman frá Alviðru.

Vegalengd: um 7. km
Göngutími: um 3 klst
Byrjunarhæð: 50m
Mestahæð: 551m


GPS

Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, hvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í göngu í skemmtilegum félagsskap.
Lagt verður af stað frá Þórustaðarnámu kl. 18:30, stundvíslega. Þar verður safnast saman í rútu og okkur keyrt austur fyrir fjallið að upphafsstað göngunnar, gjald kr. 500-.
Útbúnaður: hlífðarfatnaður, eitthvað að maula og drekka og þar sem gangan er að kvöldi til og við gætum lent í því að það verði farið að skyggja í lok göngunnar, er mælt með því  að taka með sér ljós.

Heimildur: Sunnlenskar byggðir III, og Skyggnir I

Með göngukveðju Ferðafélag Árnesinga