Fjallabak 22. ágúst 2020

 Fjallabak 22. ágúst.

Sælir félagar.
Mér þykir það miður að þurfa aflýsa ferðinni inn í Landmannalaugar .Þetta er gert vegna COVID-19 og þá um leið þeirra tilmæla sem komu fram í leiðbeiningum frá heilbrigðisráðherra um 2. metra fjarlægð á milli manna sem er regla sem er ekki valkvæð. ÁBYRGÐ-SKYNSEMI-VIRÐING.
Sjáumst vonadi sem fyrst á fjöllum.
 
Gjaldkeri okkar mun endurgreiða/leggja inn á viðkomandi. Vinsamlegast sendið bankaupplýsingar á hana sigrun.helga@simnet.is
Með kveðju Daði

 

Ef lýsa ætti Landmannalaugum í tveimur orðum, þá væru orðin “andstæður og fjölbreytileiki”.  Gróið-gróðurvana, bratt-slétt, hrjúft-mjúkt, heitt-kalt, blátt-appelsínugult, svart-hvítt, margt-fátt, stórt-smátt.  Í norðurjaðri litríks og stórskorins fjalllendis er úfið hraun.  Í jöðrum þess spretta fram heitar lindir.  

Helstu kennileiti á gönguleiðinni

Reykjakollur (Kjaftalda): Lágt fjall eða fell (734 m.y.s.) á mótum Brandsgils og Jökulgils.  Stutt og auðveld leið er fyrir gesti Landmannalauga að Reykjakolli, að skoða hverasvæði.  Þetta er rönd, neðst í hlíðinni sem að Laugum snýr, með hvæsandi smáhverum og lygilegri litaflóru.  Eins er auðvelt að skreppa upp á kollinn til að fá meira útsýni, en það krefst varúðar, svo þunn gróðurþekjan sem hylur meirihluta hans spillist ekki.

Brandsgil: Mikið gil austan Bláhnúks.  Það greinist fljótlega í Litla-Brandsgil og Stóra-Brandsgil.

Skalli:  Súr hraun frá þriðja síðasta hlýskeiði mynduðu þessa gróðurvana hábungu í 989 m. hæð y.s.  Nokkuð vinsæl og yfirleitt vel greinanleg gönguleið liggur utan í Skalla.  Auðvelt er að fara alla leið upp, en þar er frábær útsýnisstaður, einn sá besti yfir Jökulgilið.  Líka er gaman að klöngrast upp á hann úr Litla Brandsgil

Uppgönguhryggur:  Greiðasta leiðin ofan í Jökulgilið innanvert.  Milli Þrengsla og Hattvers.  Langur, hlykkjóttur hryggur með bröttum líparítskriðum til beggja handa.

Hattur: Klettastapi inni í Jökulgili, 910 m.y.s. Vinsæll viðkomustaður (enda stórbrotið umhverfi) á ómerktri en frekar greinilegri, nokkuð algengri gönguleið.

Hattver: Mesta gróðursvæðið inni í Jökulgili.  Undir Hatti og nærri Uppgönguhrygg, eina færa staðnum upp úr gilinu þeim megin.  N.k. “umferðarmiðstöð” þeirra sem smala Jökulgilið.

Jökulgil: Mikið gil sem liggur í hálfhring frá Landmannalaugum suður og inn í hálendið með Barm, Hábarm, Torfajökul og Kaldaklofsjöll á ytri væng (þykir vera skírasta dæmið um jaðar öskju Torfajökulseldstöðvarinnar). 
Brattar líparítskriður allt um kring og á botni þess flæmist Jökulgilskvíslinn frá einni hlið til annarrar. Fyrst smalað 1852, vegna hræðslu við útilegumenn.

Talið er að Torfi í Klofa hafi búið þar með sínu fólki í einangrun meðan plágan mikla herjaði á landið í lok fimmtándu aldar.  Lengd u.þ.b. 30 km.

Jökulgilskvísl: Kvíslin sem rennur eftir Jökulgili.  Á upptök sín í Torfajökli, Kaldaklofsfjöllum og Reykjafjöllum, rennur framhjá Landmannalaugum, hvar hún fer að breiða vel úr sér, og út í Tungnaá hjá Norðurnámshrauni. Lengd á að giska 45 km. 
Var brúuð við Norðurnámshraun árið 1966. Áður var farið yfir hana nær Landmannalaugum.  Vatnsmagn mjög háð veðri og árstímum.  Stundum þónokkur farartálmi.

Stóra-Hamragil: Eitt af innstu afgiljum Jökulgilsins, en lækir þessara gilja mynda upphaf Jökulgilskvíslarinnar.  Þetta gil er ekki stærra en Litla Hamragil en það er ófært.

Hnausar  Milli Torfajökuls og Jökulgils.  904 m.y.s. Líparít. Þarna er hægt að ganga úr gilinu upp á jökulinn.

Reykjafjöll:  Þau rísa, austan Hrafntinnuskers, í 1185 m. og 1163 m.y.s. Fyrir u.þ.b. 200.000 árum eða meir, mynduðust þau úr líparíti og gúlum úr ísúru bergi undir jökli. Austan í þeim eru Háuhverir.  Jökulfannirnar voru fram á síðustu öld samtengdar Torfajökli.

Hrafntinnusker: Sker þýddi fyrrum ekki bara hólma í sjó, heldur líka jörð sem stendur upp úr jökli.  Þannig hefur semsé glitt í Hrafntinnusker (1128 m.y.s.), meðan Torfajökull huldi allt svæðið umhverfis það.  Enn er jökull í Skerinu og undir honum heitir hverir sem hola hann að innan á ýmsa lund. Aldur Hrafntinnuskers er u.þ.b.8000 -8700 ár og það myndaðist í eldgosahrinu, upphafsgosið með basalti og svo kom upp seig, súr kvika.  Gróður er enginn, nema í kringum nærliggjandi hveri.  Vinsælt göngusvæði, nálægt Laugaveginum og sæluhúsi, enda nóg fyrir augað, bæði nær og fjær.

Stórihver:  Kraftmikill gufu- og goshver ofan Austurdala.  Að sumra mati eru upptök Markarfljóts í honum.  Hann er á miðri hásléttunni milli Landmannalauga og Hrafntinnuskers og er gróðurvinin hjá honum vinsæll áningarstaður þeirra sem ganga Laugaveginn.

Brennisteinsalda:Mikil litadýrð ásamt rjúkandi hverasvæði hafa gert þetta fjall að nokkurskonar einkennisfjalli Landmannalaugasvæðisins. 
Fyrsti hluti Laugavegarins liggur upp með því, þar sem upptök Laugahraunsins láta mikið fyrir sér fara.  Þetta er með vinsælli gönguleiðum landsins, og vel merkt.  Þaðan er stutt og auðratað upp á topp, í 855 m.y.s. Gosmyndun úr súru bergi undan jökli ísaldar.

Laugahraun: Í jaðri þessa hrauns koma upp hinar frægu heitu lindir Landmannalauga, með öllu tilheyrandi ferðamannafári.  Upphafskafli Laugavegarins liggur þaðan yfir hraunið.  Þetta dökka, grófa hraun (rýólít með hrafntinnuslikju) kom upp í öxl Brennisteinsöldu árið 1480.

Grænagil:  Gil milli Bláhnúks og Laugahrauns.  Vinsæl gönguleið í næsta nágrenni Landmannalauga.  Nafnið kemur frá grænum lit líparítsins neðst í Bláhnúki, fremst í gilinu.

Bláhnúkur: Það fjall sem næst stendur Landmannalaugum og er lang vinsælasta fjallgöngufjallið, brattur en vel troðinn og greinilegur stígur, útsýnisskífa efst. 
Nær gróðurlaust, 945 m.y.s., u.þ.b.50.000 – 90.000 ára fjall úr súru gjóskubergi.  Það er að hluta til úr biksteinshúðuðum hraunbólstrum og miklum glersalla. 
Talið er að ísaldarjökullinn hafi verið um 400 m. þykkur þegar Bláhnúkur hlóðst upp.  Litlu munaði að hann yrði að stapa því undir lok gossins náði hraun að renna í ísgöngum efst við eldstöðina.

Veðurfar:

Landmannalaugar er innan þess svæðis afréttarins, sem er hvað votviðrasamastur og er ársúrkoman eitthvað nærri 3.000 mm. Glæsilegt samspil rigningar og sólskins er algeng sjón. Þó að vindhraði sé að jafnaði minni en á söndunum norðantil, er vissara að fergja tjöldin vel. Það getur t.d. gert hressilega strengi innan úr gilinu.
Norðlægar áttir eru að jafnaði þurrastar og mildastar. Hin seinni ár er sjaldgæft að það frjósi eða snjói á túristatímabilinu.
Meðalhitinn er u.þ.b 7-9°C og getur orðið umtalsvert hærri í einstök skipti.

Landmannalaugar er vinsæll viðkomustaður á vetrarferðum, enda allt á kafi í snjó. Þar ríkir dæmigert sveiflukennt hálendis-vetrar-veðurfar og er meðalhitinn eitthvað nálægt -5 til -6°C

Útbúnaður: Mikilvægt er að taka með sér góðan búnað, góða gönguskó,  góðan hlífðarfatnað, húfu og vettlinga, göngustafi, bakpoka og nesti, vaða þarf Jökulkvíslina, sumir vaða berfættir, aðrir taka með  sér vaðskó.
Mæting er við  Samkaup (Hornið), kl: 07:00 stundvíslega, þar verður safnast saman í bíla og ekið sem leið liggur í Landmannalaugar þar sem gangan svo hefst um kl:10:00
myndtrack
Með göngukveðju Ferðafélag Árnesinga
Vegalengd: um 25 km 
Göngutími: 9-10 klst
Hækkun: 1200. m
Mestahæð: 1120. m
 GPS
Heimild:
veraldarvefurinn og

könnun á vettvangi.