Botnsúlur 20. júlí
Eitt af mest áberandi og eftirtektarverðu fjöllunum í nágrenni Þingvalla eru Botnssúlur. Kannski Skjaldbreiður nái að fanga augað frekar sökum reglulegar lögunnar sinnar. Oftar en ekki fá Botnssúlur að fljóta með í bakgrunni á myndum af Þingvöllum þar sem þær teygja sig hnarreistar til himins.
Gangan sem við ætlum að fara í dag hefst við Svartagil sem er á milli Botnssúlna og Ármannsfells.
Gömul þjóðleið liggur upp brekkurnar frá Svartagili yfir Gagnheiði, sem er á milli Súlnabergs og Ármannsfells austan við Botnssúlur og Hvalvatns og til efstu bæja í Skorradal og Lundarreykjadal. Þessi leið var nokkuð farin áður fyrr því hún er greiðfær og létt undir fæti. Nú eiga fáir þar leið um, helst fótgangandi fólk eins og við í skemmtiferð. Af Gagnheiði og undan Súlnabergi kemur Súlnagil, en nóg er um gil á þessu svæði, t.d að áður nefndu Súlnagili eru Sláttugil, Krókagil, Svartagil, Klömbrugi, Hrútagil og Kaplagil.
Við göngum út fyrir Súlnabergið og síðan upp á milli Háusúlu og MiðSúlu og í Bratta skála Ísalps í Súlnadal.
Ef eitthvað er að veðri eða veðurútlit tvísýnt verður gripið til áætlunar “B” (rauða strikið á kortinu) og sleppt að fara upp á SyðstuSúlu, en í staðin farið niður dalnum til austurs og að upphafsstað göngunnar við Svartagil.
Ekið er sem leið liggur til Þingvalla. Við Þjónustumiðstöðina er beygt til hægri, til vinstri hjá þeim sem kom af Reykjavíkursvæðinu, inn á Uxahryggjaleið og ekið þar til komið er hestamannasvæðinu við Skógahóla en þar er aftur beygt til vinstri og ekið eftir þeim vegi fyrir fjallsmúla og að upphafstað göngunar við Svartagil.
Þetta er nokkuð mikil ganga og löng og krefst nokkurs úthalds.
Mæting er við FSU kl. 8:00, stundvíslega, þar sem safnast verður saman í bíla,verð fyrir sæti 1000-kr. Reiknum svo með því að leggja af stað í gönguna kl:09:00.
Göngustjóri Daði Garðarsson
GPS til viðmiðunnar
Vegalengd: um 20 km
Göngutími: um 8-10 klst.
Byrjunarhæð 160
Mestahæð: 1095. m