Kerhólakambur – Þverfellshorn 5. maí
Til að koma sér að upphafsstað göngunnar sjá mynd, er ekið framhjá malarnámi í Kollafirði. Næst er ekið framhjá afleggjara að bænum Stekk. Beygt er næsta afleggjara til hægri sem er ómerktur (áður en komið er að afleggjaranum að Esjubergi). Vegurinn endar við á er nefnist Grundará, hér er bílunum lagt og gangan hefst.
Gengið er með ánni í átt að Gljúfurdal sem er í reynd gríðarstórt gil. Hér blasir við nokkuð brattur hryggur og hefur myndast gönguslóð upp hann sem rétt er að fylgja. Hér er brattasti hluti göngunnar og rétt að fara varlega. Þegar komið er upp hrygginn er haldið ská upp til vinstri að Bolagili. Upp með Bolagili er slóði sem er nokkuð greinilegur. Gott er að stefna á greinilegan hól ofar í brekkunni og halda þaðan beint upp brekkuna. Nú blasir Kerhólakamburinn við. Þegar upp á háöxlina er komið blasir auðveld brekka við upp á kambinn sjálfann. Kerhólakamburinn er nokkuð flatur og víðáttumikill. Þegar toppi Kerhólakamps er náð 852 m höldum við áfram í austur að Þverfellshorni, á toppi Þverfellshorns er útsýnisskífa og gestabók, kvittum í hana eins og góðum gestum er tamt. Héðan höldum við niður til vesturs af Horninu, niður Langahrygg, fram á Þverfellið og niður Gljúfurdalinn að upphafsstað göngunnar.
Heildar göngutími: um 4 tímar
Mestahæð: 851 metrar
Vegalengd um 10. Km
GPS til viðmiðunnar
Eins og alltaf þá eru allir velkomnir, kvetjum við alla félagsmenn jafnt sem aðra til að mæta og taka þátt í ódýrri líkamsrækt og göngu í skemmtilegum félagsskap
Brottför af bílaplani við Fjölbrautarskólann á Selfossi kl.09:00. Þar verður sameinast í bíla og ekið að uppsstað göngunnar,sætisverð kr. 1,000-, reikna má með að gangan hefjist um kl:10:00.
Athugið að Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þó svo að göngustjóri sé með í för. Félagið hvetur fólk til að vera ferða og slysatryggt í ferðum sínum.
Göngustjóri Daði Garðarsson
Með göngukveðju ferðanefndin.