Strandganga Grindavík – Reykjanesviti 21. febrúar
Fullbókað er í þessa ferð
Gengið verður milli Grindavíkur og Reykjanesvita, sem var byggður á árunum 1907-1908, veður og vindátt munu ráða því í hvora áttina verður gengið. Þrátt fyrir að hækkun sé óveruleg og þetta sé láglendisganga er hún langt frá því að vera létt, því gengið er yfir úfið hraun og gróft fjörugrjót sem reynir mikið á hnjáliði og ökkla. Áætluð vegalengd er á bilinu 20-25 km. Göngutími: 7-8 klst. Munið skjólgóðan fatnað, gott nesti og nóg að drekka.
Rúta fer frá Samkaup/Horninu Selfossi kl 8:00 og þurfa þeir sem ætla með í gönguna að koma þangað.
Athugið að fyrst verður eingöngu tekið við skráningum frá félagsmönnum FFÁR sem hafa greitt félagsgjöldin 2014, verð fyrir þá í rútuna er 2000 kr. Þeir sem ætla með sendi póst á ffarnesinga@gmail.com í síðasta lagi miðvikudagskvöldið 18. febrúar. Ef pláss verður í rútunni verður opnað fyrir skráningu á aðra en félagsmenn FFÁR eftir það og það verður þá auglýst sérstaklega. Fyrir aðra en félagsmenn yrði fargjaldið 5000 kr. Fargjald greiðist í reiðufé í rútunni; vinsamlega mætið með akkúrat upphæðina svo ekki þurfi að vera að gefa til baka.
Eftir göngu er áætlað að koma við á veitingastaðnum Bryggjunni í Grindavík og borða súpu. Í boði er humarsúpa á 1600 kr eða súpa dagsins á 900 kr. Vinsamlega takið fram við skráningu hvort þið ætlið í súpu eða ekki, við þurfum að láta vita hvað margir ætla að borða.
Við minnum fólk á að virða göngustjórn, gönguhraða og að leggja ekki af stað fyrr en göngustjóri hefur lagt af stað. Umsjón og göngustjórn með þessari göngu hafa Ólafur Auðunsson og Birna María Þorbjörnsdóttir.
ATH. Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þó svo að göngustjóri sé með í för. Félagið hvetur fólk til að vera ferða- og slysatryggt í ferðum sínum.