Friðland að Fjallabaki 16. ágúst 2014
“Nú eru það margir búnir að skrá sig í ferðina að við þurfum að biðja þá sem skrá sig héðan í frá að bíða með að millifæra þar til þeir fá svar við tölvupóstinum sínum hvort þeir komast með.”
Það fer rúta frá Samkaup Selfossi kl 7:30 og það verður hægt að geyma dót í rútunni á meðan á göngunni stendur.
Þeir sem hafa greitt félagsgjöld í FFÁR og FÍ fyrir árið 2014 hafa forgang í ferðina og greiða 3000 kr fyrir sætið. Þeir sem eru utan þessara tveggja félaga geta skráð sig á biðlista og ef pláss verður þá greiða þeir 5000 kr.
Skráning: senda tölvupóst á ffarnesinga@gmail.com með nafni og kennitölu. FFÁR og FÍ félagar greiði strax 3000 kr fargjald inn á reikning 1169-26-1580 kt 430409-1580 (það þarf ekki að senda kvittun). Athugið að skráning er ekki fullgild og sæti ekki tryggt fyrr en búið er að greiða fargjaldið.
Hámarksfjöldi í ferðina er 49 manns.
Á heimleið er stefnt að því að stoppa í Hrauneyjum og fá súpu handa mannskapnum. Verð fyrir hana er á bilinu 1500-2000 kr og greiðist þar.
Leiðarlýsing:
Leggjum í hann frá Kirkjufellsvatni. U.þ.b. 150 hektara stöðuvatn á mörkum Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, með yfirborð 573 m y.s. Vatnið er ofsetið bleikju, sem hefur aðgang að Tungnaá um Kirkjufellsós, en virðist samt halda sig á sömu slóðum og þróa með sér eigið útlit. Vatnið er djúpt og fjöllin í kring eru há.
Förum um Hábarm. Dökkleitur fjallaveggur (þó úr líparíti sé) sem gnæfir yfir Jökulgilinu, frá Landmannalaugum séð, 1192 m y.s. Hábarmur liggur í áframhaldandi boga Barms, sem ber hve gleggst vitni um barm Torfajökulsöskjunnar. Þó er Hábarmur talinn yngri en Barmur, eða u.þ.b. 390 þús ára.
Kíkum ofan í Muggudali inn af Hólmsárbotnum.
Horfum yfir Grænahrygg, Þrengsli og Jökulgil. Um miðbik Jökulgilsins fellur kvíslin um þröngan farveg milli hárra og margbreytilegra kletta. Grænn litur er áberandi í berginu þar.
Yfir svo kallaða Svigagil um Sveinsgil eina afgil Jökulgilsins neðan Þrengsla. Tilkomumikið gil sem klofnar er innar dregur. Vatn úr Hábarmi rennur öðrumegin og sameinast vatni úr Torfajökli, sem rennur hinumegin frá.
Og að endingu niður Halldórsgil um Kirkjufellsháls og að upphafsstað göngunnar.
Vegalengd um 20 km.
Byrjunarhæð 580 m
Mestahæð 1192 m
Uppsöfnuð hækkun 1600 m
Göngutími 8-10 klst.