Eyjan Árnes 10. ágúst

Eyjan Árnes er í Þjórsá. Er hún frekar fáfarin. Genginn verður hringur og kíkt á helstu staði. Fossinn Búða, Þinghóll, Gálgaklettar og Hestfoss. Hringurinn er um 16 km með óverulegri hækkun. Ágætis gönguland. Gangan tekur 6 – 7 tíma.
Farið verður frá FSU Selfossi kl. 8.oo og sameinast í bíla.
Förum upp Landsveit og förum hjá Landhótel að bænum Flagbjarnarholti þar sem við förum að Þjórsá og verðum ferjuð yfir á vaði.
Nauðsynlegt að merkja sig MÆTI – GOING fyrir hádegi föstudaginn 9. ág.
Göngustjóri Magnús Baldursson.
Athugið að Ferðafélag Árnesinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð þó svo að göngustjóri sé með í för. Félagið hvetur fólk til að vera ferða og slysatryggt í ferðum sínum.
Með göngukveðju ferðanefndin
 
Hér eru smá upplýsingar um eyjuna sem eru fengnar af vef Alþingis og er tengd fornleifaransóknum;
Árnessýsla dregur nafn sitt af Árnesi í Gnúpverjahreppi, en deilt er um hvort þar hafi verið þingstaðurinn Árnesþing eða hvort hann hafi verið við fossinn Búða, norðan Þjórsár. Það hefur þó komið mörgum undarlega fyrir sjónir að sýslan hafi verið nefnd eftir þessum óbyggða og hrjóstruga hólma sem Árnes er í dag. Fram til ársins 963 var þar vorþingstaður við Búða fyrir goðorðin þrjú í „Árnesþingsókn“. Eyjan Árnes er stærsta eyja í Þjórsá, nær 10 km 2 að stærð, en nafnið bendir til að fyrrum hafi eyjan verið landföst og að skýringa á því sé að leita í breytingum á rennsli árinnar. Í Þjórsá er eyjasamfélag og hólma. Á undirlendi Þjórsár er Hagaey ofarlega í Gnúpverjahreppi, fremur stór og að mestu gróin. Neðar er Minni-Núpshólmi, eða Viðey, vaxin birkiskógi og víði, þá Ölmóðsey grasi vaxin og síðan stærsta eyjan í Þjórsá, Árnes, sem sýslan er kennd við og almennt er talið að þar hafi verið þingstaður Árnesinga að fornu. Þrjár klettaborgir standa upp úr hrauninu á vestanverðri eynni, Þinghóll sem er stærstur, svo Gálgaklettur og fossinn Búði í efri kvísl Þjórsár. Benda öll þessi örnefni til þinghaldsins, en samt eru ýmsar efasemdir uppi. Í efri kvísl Þjórsár eru Miðhúsahólmi og Þrándarholtshólmi. Margir fleiri hólmar og eyjar eru í Þjórsá.
Þinghóll (dómhringur), 13 m í þvermál, er sýnilegur í Árnesi, en hann er óhefðbundinn og kann að hafa verið fjárgirðing. Engin merki hafa fundist um þingbúðir í Árnesi, en liðlega 3 km leið er á milli Árness og Búða. Við Búða eru sýnileg mannvirki sem líkjast mjög hefðbundnum þingbúðum og teiknaði Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur á sínum tíma upp um 30 búðir við Búða. Fleiri tóftir eru ógreinilegar og í ritgerð sinni um Árnesþingstað telur Ólafur Briem að þær séu alls 40 og flestar stórar, um 15 x 7 metrar. Enn sér fyrir fornum reiðslóðum á dældunum við Búða en enginn vegur er í námunda. Bæði austan og vestan við Búða eru jarðsögulega merkilegar melöldur sem nefndar eru Búðaröð og marka frambrún jökuls í kuldakasti sem nefnt er Búðaskeið. Þar sem Þjórsá sker melölduna heitir Búðaberg. Skammt þaðan hafa jökulöldurnar myndað tvær dældir, sléttar í botninn, en enginn veit hvor þeirra var sjálfur þingstaðurinn.